141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu.

425. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem renna stoðum undir nauðsyn þess að lög um Ríkisútvarpið verði afgreidd frá þessu þingi og ekki síður frumvarpið um breytingar á áfengislögunum. (Gripið fram í: Nei.) Það vekur athygli mína að það frumvarp hefur ekki verið til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd síðan í nóvembermánuði síðastliðnum. Ég hvet hv. nefndarmenn til að taka það nú upp þar og halda áfram að vinna það þannig að við þingmenn getum fengið það inn í þingið fyrir (Gripið fram í.) vorið.

Frú forseti. Menn á RÚV, hvort heldur er í Kastljósi eða í öðrum útsendingarþáttum, hafa auðvitað leyfi til þess að sýna það sem þeir vilja og hafa smekk fyrir, en þeir verða að þola gagnrýni. Ég segi það því að þeir bera ábyrgð á því sem er sent út og þeim ber að fara að lögum og fylgja almennu velsæmi þar um. Þá dugar ekki að mínu mati að skýla sér á bak við aulahúmor eins og þann sem var í þessu litla myndbroti sem tekið var inni í áfengisversluninni. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Það var mjög ósmekklegt að mínu mati. Ég tel að ekki sé hægt að skýla sér á bak við það.

Það vekur athygli mína og það er ekki í fyrsta sinn þegar fyrirspurnum er beint til ráðherra að lesin eru upp svör frá viðkomandi stofnun. Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er hennar mat, ekki Ríkisútvarpsins, á þeim óbeinu auglýsingum sem um er að ræða? Er þörf á því að skerpa reglur þar um?

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að þessi Nova-auglýsing sem vissulega var reynt að gera betur úr viku síðar, kannski vegna þessarar fyrirspurnar, hefði að öðrum kosti kostað um 200 þús. kr. Hún var ókeypis þarna í einum besta útsendingartíma sjónvarpsins. Í síðustu viku var 25% áhorf á Kastljós. Ég hugsa að það hafi verið jafnmikið þá.