141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu.

425. mál
[16:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég árétta það að hv. þingmaður spurði ekki í fyrirspurn sinni um mat ráðherra heldur um tilteknar reglur, hvaða reglur giltu og hvað mínútan kostaði. Ég vil bara árétta það og þess vegna leitaði ég að sjálfsögðu upplýsinga hjá viðkomandi stofnun.

Hv. þingmaður spyr mig nú um mitt mat á þessu. Mér finnst stærsta málið hvað varðar Ríkisútvarpið að það sé að sjálfsögðu ekki undanþegið gagnrýni og auðvitað eigi að fara fram lifandi umræða um það sem þar fer fram og ræða það hvað fólki finnst um það, hvort því finnist farið yfir strikið. Ég vil líka segja að það er mjög mikilvægt að við virðum um leið tjáningarfrelsi fjölmiðla. Það er hluti af tjáningarfrelsi að við höfum virka og lifandi umræðu um þessi mál.

Hins vegar vil ég nefna það sem hefur verið mín skoðun og ég hef styrkst í, að stefna eigi að því að afmarka betur hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaþjónustumiðils með því að færa það hægt og bítandi af auglýsingamarkaði, þá þyrftum við ekki að eiga þessa umræðu hér og nú. Fyrstu skrefin í þá átt eru stigin í því frumvarpi sem hv. þingmaður nefndi. Hins vegar er mjög mikilvægt, eins og ég hef líka sagt, að skerða ekki tekjur Ríkisútvarpsins að sama skapi því að það getum við ekki. Þar þurfa að sjálfsögðu að koma tekjur á móti.

Þetta er nokkuð sem mér finnst að hv. þingmenn ættu að velta fyrir sér: Hvert viljum við þróa Ríkisútvarpið? Viljum við þróa það í átt að öðrum almannaþjónustumiðlum, hvort sem er annars staðar á Norðurlöndum eða í Bretlandi, eða viljum við halda áfram þeirri stefnu sem hefur verið nokkuð séríslensk í þessum málum?