141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

samkeppni á bankamarkaði.

540. mál
[16:49]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hlýt að vísa aftur til hins lögbundna hlutverks Samkeppniseftirlitsins þegar kemur að því að taka afstöðu til einstakra samrunamála. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að af hálfu stjórnvalda hefur legið alveg ljóst fyrir að talið er mikilvægt að verja sparisjóðina og tryggja þeim tilverugrundvöll og um það hefur verið tiltölulega breið samstaða á Alþingi.

Ég minni á lagasetningu bæði hér vorið 2009 og síðan aftur á árinu 2012 sem var ef ég man rétt tiltölulega góð samstaða um. Löggjafinn og stjórnvöld hafa gert sitt til að reyna að tryggja að sparisjóðakerfið gæti verið við lýði áfram, bæði vegna þjónustunnar staðbundið en líka sem liður í því að efla samkeppni. Nú er sem betur fer miðlæg þjónusta sparisjóðanna eða reikningshald þeirra komið í traustar skorður eftir að Teris fyrirtækið komst á áfangastað og óvissu um eignarhald þess hefur verið eytt. Það sem á vantar er auðvitað að það teiknist upp skýr framtíðarmynd varðandi starfssvæði sparisjóðanna, mögulega sameiningu einhverra þeirra í öflugri einingar og auðvitað kjarkurinn til að leggja þeim til aukið stofnfé þar sem þess kann að þurfa til að efla þá í þeirri starfsemi.

Út frá því þá held ég að Samkeppniseftirlitið og þess vegna Fjármálaeftirlitið hafi fengið alveg skýr skilaboð frá löggjafanum og stjórnvöldum í þeim efnum. Síðan er það þeirra að túlka lög og rétt eins og hann er á hverjum tíma, vinna samkvæmt því og úrskurða samkvæmt því.