141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

Húsavíkurflugvöllur.

313. mál
[16:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra þau orð úr munni hæstv. innanríkisráðherra að fjármunir til reksturs Aðaldalsflugvallar við Húsavík séu tryggðir út þetta ár. Auðvitað má lengi við þar bæta þegar kemur að viðhaldi og öðru slíku og ég hef sérstaklega bent á aðflugshallasendi sem hefur hindrað för nokkurra véla til Húsavíkur á undanliðnum vikum og þarf aðeins að stilla hann og tengja til þess að koma honum í samt lag. Það er ástæða til að huga að þeim efnum og ég tel mjög eðlilegt að við bregðumst við þeim breyttu aðstæðum sem eru að skapast á þessu svæði.

Ég tel að Akureyrarflugvöllur muni erfiðlega geta annað því aukna flugi sem verður á þetta landsvæði á komandi árum. Þar er millilandaflug vonandi að aukast mjög og innanlandsflugið hefur verið mjög sterkt til þess staðar, ég þekki það mjög vel á eigin skinni, og er óhætt að búast við frekari aukningu á því sviði. Það má benda á að frá 1970 hefur innanlandsflug aukist að meðaltali um 3% á hverju einasta ári og ekkert lát hefur verið þar á. Þótt aukningin hafi verið minni en 3% sum árin þá er það sú aukning sem hefur verið að jafnaði í innanlandsflugi á þessum tíma. Þegar saman fer sú gríðarlega uppbygging sem er fram undan og það langa hagsældarskeið og hagvaxtarskeið sem er fram undan á Húsavíkursvæðinu er eðlilegt að horfa til bættra samgangna.

Við erum vitaskuld að horfa til Vaðlaheiðarganga en þangað fer það vinnuafl að stórum hluta sem mun sækja sér vinnu á svæðinu. En sambandið á milli Reykjavíkur og Húsavíkur þarf að styrkjast þegar kemur að ýmiss konar sérfræðiaðstoð og öðru slíku sem þarf á að halda við uppbyggingu jarðvarmavirkjana og (Forseti hringir.) þeirra iðnaðarkosta sem eru á svæðinu í náinni framtíð. Því er mjög ánægjulegt að heyra að málum verði sinnt hvað Aðaldalsflugvöll snertir og vonandi sjáum við framhald þar á á næstu árum.