141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:04]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fer fram með þetta mál vegna þess að mér finnst að það sem eftir er af dagskrá þessa fundar sé sérkennilegt og óásættanlegt. Stjórnarskráin hefur verið í meðförum þingsins í þrjú ár og nú á að fresta henni enn þá meira. Hún hefur beðið nógu lengi. Hún kom úr nefnd á laugardegi en var ekki tekin á dagskrá fyrr en á miðvikudegi. Hún var svo rædd á miðvikudegi og fimmtudegi en síðan gerði þingið í 11 daga hlé á störfum sínum. Þingið kom úr hléi í dag en stjórnarskráin er ekki á dagskrá og er ekki víst að hún verði á dagskrá þessa viku.

Það gengur í berhögg við vilja þjóðarinnar sem samþykkti með miklum meiri hluta atkvæða að hér skyldi fara í gegn ný stjórnarskrá. Ef málið er ekki klárað er það mjög alvarlegt. Það hefur verið sérkennilegt að leita fyrir sér varðandi það mál. Hver hefur bent á annan, formenn stjórnmálaflokkanna, formenn þingflokkanna, enginn virðist vita hver ræður dagskránni og allir hlaupa í felur.

Frú forseti. Draugagangur ræður hér ríkjum og stjórnar dagskrá þingsins. Ekki er (Forseti hringir.) viðeigandi að halda áfram með dagskrána eins og hún er. Ég óska eftir því að kvótafrumvarp ráðherra verði tekið af dagskrá og að stjórnarskráin verði sett á dagskrá (Forseti hringir.) í staðinn eins og vera ber.