141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:06]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér þykir miður að ágreiningur sé um tilhögun dagskrár í dag. Ég vil taka það skýrt fram fyrir mitt leyti að ég er áhugasamur mjög um framgang stjórnarskrármálsins eins og við þingmenn erum væntanlega allir. Varðandi hins vegar það mál sem hér var sett á dagskrá, frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, heildarlög, væri auðvitað æskilegt að það kæmist sem fyrst til atvinnuveganefndar. Það er stórt og mikilvægt mál. Það er mál sem Alþingi er vel kunnugt, má segja þaulkunnugt, þannig að ég hafði bundið vonir við að ekki þyrfti langa umræðu við 1. umr. nú þegar málið er enn endurflutt, lítt breytt frá fyrra vori, til þess að það gæti farið í atvinnuveganefnd og hún tæki það til skoðunar, og þá sneru menn sér að öðrum málum hvort sem það er stjórnarskráin eða önnur þingmál síðar í vikunni.

Í bjartsýni minni hefði ég talið að hefði verið haldinn kvöldfundur í kvöld hefði okkur ekkert átt að vera að vanbúnaði að ljúka þá 1. umr. um málið, en þó að það tæki eitthvað inn á morgundaginn færi ekki svo langur tími í það. Í trausti þess er ég sáttur við að dagskráin sé eins og hún var sett upp af hálfu forseta.