141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem komið hefur fram að þinginu er málið nokkuð vel kunnugt og því er ástæða til að ræða það í þaula. Hér er deilt um hvort ræða eigi stjórnarskrána, og við þekkjum hvernig það mál hefur verið unnið, eða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem eru augljóslega til hins verra.

Virðulegi forseti. Ég vakti á því athygli í dag að allt bendir til þess að nú dragi mjög úr hagvexti á Íslandi og hæstv. ráðherra atvinnumála og nýsköpunar sagði að engar töfralausnir væru til staðar. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra. En, virðulegi forseti, við ættum þá frekar að ræða lausnir, ekki töfralausnir heldur lausnir á vanda heimila, á vanda fyrirtækja, á vanda ríkissjóðs í ljósi þeirra breytinga sem nú liggja fyrir. Það væri nær fyrir Alþingi Íslendinga að bregðast við, ekki með töfralausnum heldur með markvissri stefnumótun sem því miður hefur vantað hjá núverandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn er hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. (Forseti hringir.) Kannski má segja sem svo að hún geti aldrei orðið lausnin.