141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er mikill áhugamaður um að við ljúkum 2. umr. um stjórnarskrárfrumvarpið, við erum í henni miðri. Ég geri hins vegar engar athugasemdir við að fiskurinn, eins og við köllum það hér dagligdags, komi á dagskrá í dag. Það er frumvarp sem mönnum er vel kunnugt. Þetta er 1. umr. og markmiðið er að koma því máli til nefndar.

Í trausti þess að hér verði ekki haft uppi málþóf um frumvarpið í því skyni að fara illa með stjórnarskrárfrumvarpið eina ferðina enn segi ég nei við tillögu um breytta dagskrá. Ég treysti því að við munum ljúka umræðum um fiskinn og við getum þá haldið áfram umræðum um stjórnarskrána, 2. umr. sem við erum í miðri, því að hún skiptir máli. Það er kallað eftir þeirri umræðu, ekki bara úti í samfélaginu heldur líka í salnum og við skulum ekki bregðast þeim væntingum.