141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

dagskrá næsta fundar.

[17:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það gleður mig mjög að hæstv. ráðherra hafi fengið loðnukvóta í símann sinn [Hlátur í þingsal.] en það er eins og annað hvað þessa ríkisstjórn varðar, að það sem vel gengur, það geta menn þakkað náttúrunni. [Hlátur í þingsal.] Það sem verra er, eru auðvitað stjórnvaldsaðgerðirnar sjálfar og þar standa eftir skattahækkanir, pólitísk óvissa og önnur óáran sem yfir þjóðina hefur dunið vegna stjórnarstefnunnar. (Gripið fram í: Nei, hættu nú.) Hætti ég nú? Nei, virðulegi forseti, [Háreysti í þingsal.] hætti ríkisstjórnin. Hætti ríkisstjórnin.

Virðulegi forseti. Af því að hér var talað um fundi og skipulag þingstarfa þá vil ég taka það fram, vegna þess sem hér var sagt varðandi fundi þingflokksformanna, að dagskrá þingsins liggur fyrir. Mjög hefur verið um það talað að skipuleggja þurfi störf þingsins betur, að það þurfi meiri aga og meiri festu. Fyrir liggur dagskrá þingsins, bæði hvað varðar þinglok og líka á hvaða dögum eigi að þinga. (Forseti hringir.) Eigum við nú ekki að sýna svolítinn aga og svolitla festu og halda okkur við dagskrána þannig að hægt sé að hafa eitthvert eðlilegt skipulag á þingstörfum.