141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:22]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða. Hér er um heildarlöggjöf að ræða. Þetta er þskj. 968, 570. mál þessa þings.

Frumvarpið hefur að geyma ný heildarlög um stjórn fiskveiða sem er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög með sama heiti sem sett voru upphaflega sem lög nr. 38/1990, en síðar endurútgefin með áorðnum breytingum sem lög nr. 116/2006. Reyndar gerir þetta frumvarp betur því að með því eru felld úr gildi allmörg fleiri lög á sviði fiskveiðimála. Þannig kemur það sömuleiðis í stað laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, og laga nr. 12/1975, um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, eins og sjá má í 44. gr. frumvarpsins, um gildistöku og brottfall laga. Hér eru þá sameinuð á einn stað í nýja heildstæða löggjöf allmörg sérlög sem um þetta hafa gilt.

Það er búið að vinna að þessu máli í ýmsum skrefum og þessari fyrirhuguðu og áformuðu endurskoðun fyrirkomulags fiskveiðistjórnar allt frá upphafi kjörtímabils þannig að frumvarpið á sér langan aðdraganda og reyndar miklu lengri en það ef út í það er farið eins og hv. þingmenn þekkja vel.

Við þetta hefur verið glímt í ýmsum nefndum og í tíð ýmissa ríkisstjórna allt frá því fyrir aldamót þegar auðlindanefnd var að störfum o.s.frv.

Í júlí 2009 var skipaður sérstakur þverpólitískur starfshópur stjórnmálamanna og hagsmunaaðila til að skilgreina álitaefni sem fyrir hendi væru við stjórn fiskveiða og láta vinna nauðsynlegar greiningar og setja fram valkosti varðandi leiðir til breytinga á stjórn fiskveiða.

Í þessum starfshópi áttu sæti allir helstu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og skýrsla hópsins kom fram í nóvember 2010. Þar eru rakin ýmis álitaefni við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og lagðar fram hugmyndir og tillögur. Þar var lögð áhersla á gerð samninga um nýtingu aflaheimilda til þess að ganga formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Þar var jafnframt lagt til að aflaheimildum yrði skipt í svokallaða potta, annars vegar aflahlutdeildir og hins vegar pott í hverjum væri að finna bætur, ívilnanir, byggðakvóta, strandveiðar og aðrar sértækar ráðstafanir í kerfinu. Að auki skyldi úthlutun nýrra heimilda fara fram í einhverjum mæli á opinberum markaði.

Eftir að vinnu þessa starfshóps lauk hófst vinna í sjávarútvegsráðuneytinu, sem þá hét, við samningu frumvarps til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða í nánu pólitísku samráði milli stjórnarflokkanna.

Frumvarpið kom fram á 139. löggjafarþingi veturinn 2010–2011 og var mælt fyrir því á þingfundi 3. júní 2011, reyndar ekki fyrr en það. Því frumvarpi var vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar eftir 1. umr. Nefndin leitaði umsagna um frumvarpið og bárust þær fjölmargar og segja má að í þeim umsögnum hafi komið fram ýmisleg gagnrýni á sum af veigameiri ákvæðum frumvarpsins.

Haustið 2011 setti þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, á fót starfshóp fjögurra manna sem vann frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Var það kynnt á vefsíðu ráðuneytisins í nóvember 2011. Síðar í þeim mánuði var samþykkt í ríkisstjórn sú tillaga forsætisráðherra að skipa sérstaka ráðherranefnd tveggja ráðherra, hvors frá sínum stjórnarflokki, til að fara enn yfir málin og skilaði sú nefnd stöðuskýrslu til ríkisstjórnar í janúar 2012 þar sem fjallað var um einstök og afmörkuð viðfangsefni og álitamál innan þessa ramma.

Ríkisstjórnin tók við stöðuskýrslu ráðherranefndarinnar og fól þá nýskipuðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þ.e. þeim sem hér stendur, að vinna að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða með þetta til hliðsjónar. Að lokinni umfangsmikilli undirbúningsvinnu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var svo mælt fyrir nýju frumvarpi til heildarlaga um stjórn fiskveiða á 140. löggjafarþingi 28. mars á síðasta ári. Við þá vinnu var haft samráð við til dæmis þingmenn stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd. Auk þess voru haldnir upplýsingafundir með hagsmunaaðilum. Samhliða frumvarpinu var mælt fyrir sérstöku frumvarpi um veiðigjöld sem byggt var á tillögum frá nefnd um mótun heildstæðrar stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi sem sett var á fót af þáverandi fjármálaráðherra í nóvember 2011. Frumvörpunum tveimur var vísað til atvinnuveganefndar til nánari meðferðar. Aftur barst nefndinni mikill fjöldi umsagna um frumvörpin og fjallaði hún ítarlega um þau á fjölmörgum fundum sínum. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða varð þó ekki afgreitt úr nefndinni en þar hafði þýðingu að þegar á leið var ákveðið að leggja þyngri áherslu á afgreiðslu frumvarps til laga um veiðigjöld, þess sem síðar varð að lögum nr. 74 frá 26. júní 2012, enda voru þær tekjur sem veiðigjöldin eiga að skila orðnar hluti af samþykktri ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Með þessum lögum um veiðigjöld var mælt fyrir um tvenns konar gjaldtöku, annars vegar grunnveiðigjald sem nefnist almennt veiðigjald og svo sérstakt afkomutengt auðlindagjald sem nefnist sérstakt veiðigjald. Ítarlega er gerð grein fyrir því og markmiðunum að baki í athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi og ég tel ekki ástæðu til að rekja þau hér en læt nægja að vekja athygli á því sem öllum er ljóst, að löggjöfin um veiðigjöld er að sjálfsögðu skyld og tengd því hver verður niðurstaðan varðandi fyrirkomulag stjórnar fiskveiða hverju sinni.

Þessu tengist og að hinn 18. júní 2012 undirrituðu formenn stjórnarflokkanna yfirlýsingu um afgreiðslu og meðferð þeirra sjávarútvegsfrumvarpa sem hér voru í höndum Alþingis í fyrravor og þar var meðal annars kveðið á um að svonefndur trúnaðarmannahópur fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem þá hafði unnið nokkuð með málið mundi ljúka sinni vinnu og skila samantekt eða greinargerð og hafa þá einnig til hliðsjónar það samspil sem ég nefndi áðan milli fyrirkomulags fiskveiðistjórnar og veiðigjalda.

Í greinargerð þessa trúnaðarmannahóps, sem er dagsett 12. september 2012, er fjallað um einstök viðfangsefni sem hópurinn hafði til skoðunar og dregið fram eftir atvikum það sem samkomulag gæti orðið um þótt það sé háð ýmsum fyrirvörum, t.d. um heildarniðurstöðu. Greinargerð þessi er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Við undirbúning þess frumvarps sem nú kemst hér loksins til 1. umr. hefur allt þetta verið haft til hliðsjónar og skoðunar, í raun öll gögn sem birst hafa í málinu og bæst við síðan á síðustu vormánuðum, þar á meðal sú vinna að stefnumótun á sviði auðlindalöggjafar sem leit dagsins ljós í skýrslu á haustdögum.

Loksins hefur verið höfð til hliðsjónar önnur vinna, svo sem endurskoðun stjórnarskrárinnar og annað sem máli skiptir.

Frú forseti. Ég hef þá lítillega rakið aðdraganda þessa frumvarps, farið þar hratt yfir sögu og vil víkja að helstu efnisbreytingum sem þetta frumvarp geymir, með hliðsjón af því frumvarpi sem ekki varð útrætt á 140. löggjafarþingi.

Þar má meðal annars nefna að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir verulegu aflamarki á kvótaþing til útleigu á vegum ríkisins. Er áætlun þar um til þriggja ára sett upp og birt sérstök tafla um líklega þróun að gefnum tilteknum forsendum um þróun veiðiheimilda á komandi árum. Hluti þessarar uppbyggingar kvótaþings er fólginn í tilfærslu frá öðrum hliðarráðstöfunum kerfisins eins og þær hafa verið að undanförnu, byggðakvóta, línuívilnun og skel og rækjubótum, en megnið er aflamark sem fengið er með varanlegri tilfærslu frá aflahlutdeildarhöfum á fyrstu þremur árum áætlaðs gildistíma laganna. Þá ber og að hafa í huga að í þessu sambandi mun ráðstöfun fastrar aflahlutdeildar til strandveiða auka nokkuð hlut þeirra ef að líkum lætur á næstunni.

Í öðru lagi er mælt fyrir um 20 ára úthlutun aflahlutdeilda í upphafi en ekki um sjálfkrafa úthlutun hlutdeildanna til 15 ára í senn við upphaf hvers fiskveiðiárs að liðnum fimm árum frá gildistöku frumvarpsins eins og áður var, verði ekki annað ákveðið, en þannig var frá málinu gengið í fyrra frumvarpi. Í staðinn er kveðið á um að ráðherra skuli eigi síðar en í desember 2016 leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum þar sem mælt verði fyrir um ráðstöfun nýtingarleyfa og aflahlutdeilda að liðnu hinu 20 ára tímabili. Í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið segir að skipa skuli nefnd eigi síðar en 1. september 2013 sem vinni tillögur og nauðsynlega stefnumótun til undirbúnings slíku frumvarpi.

Í þriðja lagi eru felld brott ákvæði sem voru í 2. mgr. 12. gr. fyrra frumvarps um skerðingu á framseldri aflahlutdeild við flutning og í 3. mgr. 12. gr. þess frumvarps varðandi hámark á framsali aflahlutdeildar einstakra tegunda, en þau höfðu sætt verulegri gagnrýni í meðförum Alþingis.

Af öðrum atriðum frumvarpsins má nefna að ákvæði gildandi laga, þ.e. gildandi fyrirkomulag, um viðskipti með krókaaflahlutdeildir og aflahlutdeildir „milli kerfa“ eru efnislega óbreytt frá ástandi dagsins í dag. Það er fallið frá þeim breytingum sem lagðar voru til í þeim efnum í fyrra frumvarpi. Þá er einnig leitast við að skýrgreina stærðarmörk krókaaflamarksbáta betur en nú er gert í lögum, en reyndar er einnig tekið á því í litlu sérfrumvarpi sem er til umfjöllunar nú í hv. atvinnuveganefnd.

Heimildir til að flytja aflamark til skipa í upphafi fiskveiðiárs eru nokkuð rýmkaðar frá því sem gert var ráð fyrir í fyrra frumvarpi. Fastri aflahlutdeild er ráðstafað til strandveiða, hinu sama magni í hlutfalli af þeim tveim tegundum sem byggja þær veiðar upp, þ.e. þorski og ufsa, og er á yfirstandandi fiskveiðiári miðað við heildarveiði.

Mælt er fyrir um að tengdir aðilar í skilningi ákvæða um hámarksaflahlutdeildir teljist aðilar þar sem annar á beint eða óbeint 30% hlutafjár í hinum og er hlutfallið þar með lækkað úr 50%. Gefinn er þriggja ára aðlögunartími að þessari breytingu. Fiskistofa hefur illa treyst sér til að framfylgja ákvæðum gildandi laga nema þau væru skýrð og gerð fortakslaus og er það gert með þessum hætti og tekið mið af þeim viðmiðunarmörkum sem almennt eru notuð annars staðar í löggjöf þegar skilgreint er hvenær aðilar skuli teljast tengdir.

Þá er tekið á því að reglur um hámarksaflahlutdeildir gildi ekki um deilistofna með skýrum hætti, en það er til samræmis við gildandi lög eða túlkun þeirra.

Loks er gert ráð fyrir að sérstök nefnd sem taki til starfa eigi síðar en 1. september 2013 taki þessi ákvæði um hámarksaflahlutdeildir til endurskoðunar, samanber bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpinu.

Frú forseti. Ég vil nú fjalla um nokkra aðra megindrætti frumvarpsins sem mikilvægt er að fái góða skoðun.

Það þarf að sjálfsögðu ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þessa máls, enda er hér sýslað um hina verðmætu og dýrmætu fiskveiðiauðlind þjóðarinnar, tvímælalaust eina þá mikilvægustu fyrir okkar tilveru í landinu og mætti hafa skáldlegar tilvitnanir uppi í þeim efnum.

Í 1. málslið 1. gr. gildandi laga um stjórn fiskveiða er lýst yfir sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Í skýringum við það ákvæði er tekið fram að í því felist eins og þar segir, með leyfi forseta, „sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina“.

Jafnframt segir að það verði að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Með 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gerð minni háttar tillaga um breytt orðalag að þessu leyti þannig að því verði lýst yfir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Þessi orðalagsbreyting tekur meðal annars mið af tillögu stjórnlagaráðs frá 2011 að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Sú tillaga á sér rætur í umræðum um auðlindamál á síðustu árum, m.a. í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 og frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi 2008–2009. Í skýringum með tillögum ráðsins kemur fram að ákvæðið feli í sér að núlifandi kynslóð deili náttúruauðlindum í þjóðareign með óbornum kynslóðum og hafi því ekki rétt til að ráðstafa auðlindunum eingöngu í eigin þágu. Skorðurnar sem ákvæðinu sé ætlað að reisa við ráðstöfun auðlinda í þjóðareign eigi einnig við um réttindi tengd auðlindunum en ekki aðeins auðlindirnar sjálfar. Með þessari breytingu er leitast við að tryggja enn frekar eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni.

Í 1. gr. frumvarpsins er því lýst yfir að markmið þess séu sex talsins. Í fyrsta lagi er að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland, í öðru lagi að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, í þriðja lagi að treysta atvinnu og byggð í landinu, í fjórða lagi að auka vægi jafnræðissjónarmiða við ráðstöfun aflaheimilda, í fimmta lagi að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu og í sjötta lagi að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.

Með frumvarpinu er leitað jafnvægis milli þessara sjónarmiða sem að hluta til falla saman og geta að mörgu leyti verið samrýmanleg, en að sumu leyti eru þau það síður þannig að þarna er úrlausnarefnið að leitast við að ná jafnvægi.

Frú forseti. Í athugasemdum við frumvarpið er ítarlega gerð grein fyrir því hvernig það samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Þar er rakið hvernig fyrirkomulag fiskveiða hefur tekið breytingum og gerð grein fyrir helstu dómum sem fallið hafa í Hæstarétti um þá tilhögun sem felst í gildandi lögum. Þá er einnig gerð ítarleg grein fyrir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2008 í svonefndu Fagramúlamáli. Í þessu ljósi er fjallað um eðli þeirra réttinda sem felast í handhöfn aflaheimilda. Á það er bent að réttindi njóti sérstöðu þar sem þau eru stofnuð með lögum, sett í skjóli almannaréttar til fiskveiða og er ætlað að þjóna samfélagslegum markmiðum.

Með frumvarpinu er leitast við að tryggja festu og öryggi í sjávarútvegi með tímabindingu aflahlutdeilda til nokkuð langs tíma og fyrirsjáanleika um mögulegar breytingar á skipulagi í sjávarútvegi. Með þessu er forræði þjóðarinnar yfir auðlindinni með ótvíræðum hætti hafið yfir vafa og leitast við að koma til móts við þau sjónarmið sem leiða af áliti mannréttindanefndarinnar, einkum með tímabindingu réttindanna, auknum möguleikum til nýliðunar og stofnun kvótaþings.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að núverandi handhafar aflaheimilda fái tiltekinn og stærstan hluta þeirra í formi nýtingarleyfa sem ákveðnar kvaðir verða á. Valin er sú leið að tala um nýtingarleyfi en ekki nýtingarsamninga þar sem talið er eðlilegt og í samræmi við meginreglu stjórnsýslunnar og stjórnsýsluréttarins að hafa slíkt skipulag á í stað þess að færa stjórn fiskveiða í búning einkaréttarlegra viðskipta milli tveggja aðila.

Það má segja að með þessu sé enn fremur undirstrikað eignarhald þjóðarinnar og það ráðsmannshlutverk sem ríkið fer með en um leið lítum við á nýtingarleyfin sem ígildi tiltekins samkomulags sem tryggir ákveðinn rétt til handa báðum aðilum sem að málinu koma.

Með frumvarpinu er lagt til að aflahlutdeildum verði skipt í tvo flokka, í fyrsta lagi flokk 1 sem er nýtingarleyfi til aflahlutdeildarhafa og í öðru lagi flokk 2 sem er aflahlutdeildir í höndum ríkisins til ráðstöfunar samkvæmt IV. kafla frumvarpsins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að framsal aflahlutdeilda verði í megindráttum heimilað innan 20 ára aðlögunartíma og gildistíma þeirra nýtingarleyfa sem mælt er fyrir um í 11. gr. Frumvarpið hefur að geyma heimild fyrir ráðherra til að neyta forgangsréttar við framsal aflahlutdeilda ef séð er að mikil aflahlutdeild yrði mögulega seld úr fámennu byggðarlagi með verulegum neikvæðum áhrifum á það.

Þá er í frumvarpinu að sjálfsögðu ekki girt fyrir það að sett verði nánari ákvæði um meðferð aflahlutdeilda með hliðsjón af meginmarkmiðum frumvarpsins. Það er rétt að leggja áherslu á það að að sjálfsögðu hverfur ekki frá löggjafanum rétturinn til að gera áfram málefnalegar breytingar sem rök standa til þó að lögfest séu þau ákvæði sem hér eru lögð til í frumvarpinu. Að sjálfsögðu er löggjafarvaldið ekki tekið úr sambandi eða framselt annað á einn eða neinn hátt.

Í því frumvarpi sem ekki varð útrætt á 140. löggjafarþingi var til að mynda í 2. mgr. 12. gr. mælt fyrir um takmörkun á framsali aflahlutdeilda eftir að 20 ár væru liðin frá því að frumvarpið hefði orðið að lögum. Ekki var talin ástæða til að setja slíka reglu í þetta frumvarp en að sjálfsögðu verður það viðfangsefni löggjafans á næstu árum og eftir atvikum áratugum að móta reglur um þetta eins og annað. Vísa ég þá aftur til þeirrar lagaskyldu sem með frumvarpi þessu yrði lögð á ráðherra málaflokksins að koma innan ársloka 2016 með tillögur til Alþingis í frumvarpsformi um framhaldið.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild til að flytja aflamark milli skipa verði þrengd nokkuð frá núgildandi lögum. Með því er ætlunin að stuðla að því að skip almennt veiði sínar úthlutuðu aflaheimildir. Á hinn bóginn er auðvitað mikilvægt að útgerðir geti brugðist við, t.d. varðandi óhjákvæmilegan meðafla við veiðar, geti skipt á veiðiheimildum eða leigt til sín eftir atvikum við slíkar aðstæður. Það er mikilvægur þáttur þess að umgengni um auðlindina sé góð og að allt sé gert sem hægt er til að draga úr hættu á slæmri umgengni og brottkasti.

Þá er og áfram mikilvægt að svigrúm gefist til hagræðingar og að menn geti jafnan brugðist við breyttum aðstæðum.

Meiri hluti starfshóps sjávarútvegsráðherra um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða frá 2010, sáttanefndin svokallaða, taldi rétt að kaup og sala aflamarks færi fram á vegum ríkisins þar sem verð myndaðist við tilboð og að aðgangur þeirra sem áhuga hefðu á heimildum yrði jafn. Verði frumvarpið að lögum mun Fiskistofa starfrækja sérstakt kvótaþing um viðskipti með aflamark. Á árunum 1998–2001 var starfrækt sambærileg eining, Kvótaþing, og leitast verður við að byggja á þeirri reynslu sem þá varð til. Kvótaþing mun samkvæmt frumvarpinu annast það hlutverk að starfrækja markað fyrir aflamark. Það skal vera vettvangur viðskipta og annast greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda. Að meginreglu munu kaup og sala á öllu aflamarki í flokki 1 fara fram á kvótaþingi, auk þess að ráðherra verður heimilt að ráðstafa hluta, reyndar stærstum hluta, aflamarks úr flokki 2 um þingið. Gert er ráð fyrir að með þessu opnist möguleikar af ýmsu tagi, þar á meðal fyrir fleiri til þess að fóta sig í útgerð eða bæta stöðu sína, þá sem við takmarkaðar og þröngar aðstæður búa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra muni ráðstafa verulegu aflamarki árlega sem til fellur úr aflahlutdeild innan flokks 2. Um er að ræða aflahlutdeild sem samanstendur af núverandi úthlutun til byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbótum, strandveiðum og frístundaveiðum auk viðbótarskerðingar á aflahlutdeild núverandi aflahlutdeildarhafa. Með þessari aukningu og auknum sveigjanleika til úthlutunar á henni er leitast við að draga úr óvissu og meðal annars auka stöðugleika þeirra byggða sem veikast standa. Þannig verður mögulegt að bjóða aflaheimildir til leigu um kvótaþing á veikburða svæðum með skilyrðum um veiðar og vinnslu á svæðinu. Auk þess munu strandveiðar standa nær óbreyttar frá því sem þær hafa nú þróast undanfarin ár, en því verður ekki á móti mælt að þær hafa komið sér vel og hleypt lífi á nýjan leik í fjölmargar smærri sjávarbyggðir.

Í frumvarpinu er gerð óbreytt tillaga um ráðstöfun tekna sem hlýst af leigu aflamarks úr flokki 2 á kvótaþingi og að það skiptist í hlutföllunum ríki 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður innan greinarinnar 20%. Af hluta ríkisins yrði samkvæmt frumvarpinu heimilt að ráðstafa í þágu þeirra aðgerða sem greinir í 2. mgr. 13. gr., um forgangsréttinn, 2. mgr. 18. gr., um nýliðunarleyfi, og 1. mgr. 19. gr., um kvótaþingið sjálft, til að auka svigrúm ríkisins eða standa straum af kostnaði í þeim efnum. Hvað snertir ráðstöfun þeirra tekna deilt til sveitarfélaga sýnist eðlilegt að tekið verði meðal annars mið af sögulegu mikilvægi sjávarútvegs á einstökum svæðum eða í einstökum landshlutum, en sérstök nefnd skal gera tillögur að því leyti og hafa þar sveitarfélögin með, samanber ákvæði V til bráðabirgða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fastri aflahlutdeild sé ráðstafað til strandveiða eins og kveðið er nánar á um í 20. gr. og sambærilegt ákvæði er að finna í því frumvarpi sem ég þegar nefndi og er nú til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra taki frá aflamark í flokki 2 það sem ráðstafað verður til byggðakvóta sem og til greiðslu bóta og annarra slíkra aðgerða. Byggðakvóti er fyrst og fremst aðgerð fyrir byggðarlög sem orðið hafa fyrir skerðingu aflaheimilda og eru háðar veiðum og vinnslu. Er það árlega reiknað út á hlutlægan hátt hvaða byggðarlög hljóta slíkar aflaheimildir.

Í frumvarpinu er ekki gerð tillaga um gagngerar breytingar á þessu kerfi eða þessu regluverki varðandi meðferð og úthlutun byggðakvóta en gert er ráð fyrir því að á næstu árum verði svigrúm til að draga nokkuð úr því aflamarki sem ráðstafað verður í byggðakvóta og þá á móti því og til samræmis við það svigrúm sem myndast með útleigu á kvótaþingi og eftir atvikum svæðisbundinni útleigu þar.

Ég vil þó taka fram fyrir mitt leyti að ég tel fulla þörf á því að endurskoða fyrirkomulag byggðatengdra ráðstafana í frumvarpinu eða í lögum eins og þau hafa staðið í heild sinni og gæti það verið verðugt viðfangsefni strax á næsta fiskveiðiári.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins við frumvarpið er hvað þennan þátt varðar slegið á það mati að tekjur af leigu aflamarks úr flokki 2 gætu orðið á bilinu 2,3–2,7 milljarðar kr. fiskveiðiárið 2013/2014 og mundu þá skiptast í þeim hlutföllum sem áður greindi.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, er í þessu frumvarpi gerð tilraun til þess að endurskoða og færa saman á einn stað allmörg lög, sérlög sem gilt hafa til hliðar við lög um stjórn fiskveiða, og búa þar til eina heildstæðari löggjöf sem nær betur utan um málið í heild. Það fer ekki hjá því þegar maður flettir lagasafninu á þessu sviði að löggjöfin er nokkuð sundurleit og brotakennd og sums staðar er að finna býsna hliðstæð en þó ekki endilega alveg eins ákvæði um sömu hlutina, annars vegar í lögum um stjórn fiskveiða, hins vegar í lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og jafnvel í lögum um umgengni og nytjastofna sjávar og þar fram eftir götunum. Þar af leiðandi er á þessu tekið og ég bendi hv. þingmönnum á að lesa 44. gr., um gildistöku og brottfall laga, sem og 45. gr., um breytingar á öðrum lögum, og umsagnir þar um. Þar er þetta samhengi hlutanna skýrt.

Ekki er vafi á, burt séð frá deilum sem kunna að vera um inntak frumvarpsins hvað varðar ákveðin efnisatriði, að það væri til mikilla bóta og mikilla framfara að fá á einn stað og í ein samræmd heildarlög öll helstu ákvæði sem snúa að því hvernig farið er með og stjórnað nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Virðulegur forseti. Málið er hv. þingmönnum og viðkomandi þingnefnd vel kunnugt. Það hefur verið rætt áður ítarlega. Vonir mínar standa til þess að málið geti nú eftir málefnalega 1. umr. gengið til hv. atvinnuveganefndar og það sem fyrst. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.