141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér heldur hæstv. ríkisstjórn áfram að breyta fiskveiðistjórnarmálum okkar Íslendinga. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að allt sem áður hefur fram komið um þessi mál hefði verið skoðað og vel farið yfir það. Ákveðnar breytingar eru gerðar í því frumvarpi sem hann leggur nú fyrir þingið.

Í ljósi þeirra miklu deilna sem fyrri mál hafa vakið og þá miklu gagnrýni sem hefur komið fram á þær tillögur og þau þingmál, vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvað ráðuneytið hafi gert varðandi undirbúning á þessu máli. Hafa sérfræðingar verið fengnir til að skoða þær breytingar sem nú eru lagðar fram? Hvaða áhrif hefur málið á íslenskan sjávarútveg, mismunandi útgerðarflokka, arðsemi (Forseti hringir.) þjóðarinnar af greininni og sjávarbyggðir? Hefur slík skoðun farið fram eftir þær breytingar sem ráðherrann kynnir hér til leiks?