141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:51]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég tók fram hefur verið farið yfir allt það sem bæst hefur við af gögnum og sjónarmiðum frá því að málið var til umfjöllunar á Alþingi síðastliðið vor. Þá lágu fyrir, og eru vel kunnug, viðhorf til einstakra álitamála þannig að við litum ekki svo á að það þyrfti að endurtaka það, ekki væri ástæða til að ætla að margt nýtt kæmi fram þótt sömu aðilar yrðu fengnir til að fjalla um sömu hlutina.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið taka mið af ýmsu. Tiltekin ákvæði úr lögunum sem málefnalegrar gagnrýni sættu eru felld brott og uppbyggingu potts 2, eða hluta hans, hefur verið breytt nokkuð. Innan greinarinnar er því dreift öðruvísi að leggja til þær heimildir sem byggja þann pott upp, meðal annars og sérstaklega með hliðsjón af því sem talið var vera sú besta nálgun sem fáanleg væri úr opinberum gögnum og hagtölum um afkomu mismunandi greina þannig að það kæmi (Forseti hringir.) sem sanngjarnast niður miðað við afkomutölur úr greininni. Skerðingarmörk þegar þorskkvótinn (Forseti hringir.) vex eru færð verulega upp sem kemur að sjálfsögðu þeim hluta útgerðanna til góða sem háður er bolfiskveiðum og svo framvegis.