141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:59]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki þetta vel og ég er sammála hv. þingmanni í þeim efnum að eins og málin standa og horfa fyrir Stykkishólm og Snæfellsnesið eru skelbæturnar mikilvægar þó ekki sé gott að þurfa að búa við slíkt uppbótarkerfi árum og ég tala nú ekki um áratugum saman. Sérstaklega ekki ef þau réttindi geta færst til eins og átt hefur sér stað með rækjuna. Auðvitað er augljóst mál að það yrði mikill skellur fyrir viðkomandi svæði ef þær yrðu teknar af. Að því þarf að sjálfsögðu að huga.

Í aðalatriðum tel ég mikilvægt að ríkið hafi svigrúm til þess að ráðstafa á besta mögulegan máta þeim veiðiheimildum sem það hefur til ráðstöfunar hverju sinni. Meiningin er að stefnumótunin hvað það varðar sé lögð fyrir Alþingi með reglubundnum hætti í formi þingsályktunartillögu. Þannig yrði það í höndum löggjafans að staðfesta slíkar tillögur eða breyta þeim ef svo ber undir. Ég les ekki út úr því endilega að skelbæturnar sem slíkar yrðu til dæmis skertar mikið frá því sem nú er. Ég held að ástæða sé til að (Forseti hringir.) það dragi úr þörfinni fyrir rækjubæturnar á komandi árum, enda hefur rækja lifnað við á að minnsta kosti þremur svæðum nú undanfarin tvö, þrjú ár, þar sem bætur voru áður greiddar.