141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör þó að mér hafi nú ekki fundist þau vera alveg tæmandi. Hv. þingmaður kom inn á það að hann sæi ýmsa galla á þessu kerfi og nefndi að hann hefði stuðlað að því að efla krókaaflamarkskerfið. Hann ræddi um framsalið, hvaða neikvæðu áhrif það hefði haft á byggðirnar. En þegar hann var hér við stjórnvölinn var framsal líka leyft í krókaaflamarkskerfinu og hafði nákvæmlega sömu afleiðingar og í stóra kerfinu að samþjöppun varð og mikil byggðaröskun í framhaldinu.

Telur hv. þingmaður að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma að leyfa þetta framsal með þeirri fækkun sem varð og samþjöppun í krókaaflamarkskerfinu sem vissulega styrkti þær byggðir sem höfðu misst frá sér kvóta og aflaheimildir úr stóra kerfinu?

Í sambandi við strandveiðarnar sem settar voru á vorið 2009, telur hv. þingmaður að strandveiðarnar hafi orðið til að styrkja byggðirnar og mundi hann vilja halda þeim áfram með sama hætti og verið hefur? Ef hann hefði eitthvað um það að segja á næsta kjörtímabili, hvernig sæi hann það þá fyrir sér? Hvaða augum lítur hann það að strandveiðarnar skuli nú settar inn í hlutdeild sem þýðir að það sé sjálfkrafa aukning, ef aflahlutdeild eykst þá stækki potturinn sjálfkrafa, og sé til þess að styrkja þá sem hafa haft lifibrauð af strandveiðum yfir sumartímann, og hefur vissulega styrkt þá sem hafa gert út í smábátakerfinu til að afla sér tekna árið um kring.