141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða hér um byggðarleg áhrif á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en ég spyr bara á móti: Er þetta frumvarp svar við því? Færir þetta frumvarp fiskveiðirétt til hinna veikari byggðarlaga þegar á sama tíma er verið að skerða hin sértæku byggðarlegu úrræði sem við höfum byggt inn í þetta fiskveiðistjórnarkerfi, skerða þau um helming? Er þá ekki ljóst mál að þetta mun fremur leiða til þess að veikja útgerðir á þessum stöðum og þar með byggðirnar á þessum stöðum? Síðan er mönnum vísað inn í kvótaþing eins og ég rakti hér áðan, þar sem ekki verður á vísan að róa, þar sem menn eiga að bjóða í aflaheimildirnar sem ríkið býður upp og vita aldrei fyrir fram hvort þeim takist að krækja sér í veiðirétt í gegnum kvótaþingið eða ekki. Að vísu er sett sérstakt varnaglaákvæði varðandi veikustu byggðirnar en mun auðvitað ekki vera almenna ákvæðið sem gildir fyrir allar sjávarbyggðir hringinn í kringum landið, það blasir við og það er auðvitað andi þessa frumvarps.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma, þegar tekin var ákvörðun um krókaaflamarkið, þá var framsal leyft innan krókaaflamarksins. En það var gert meira, jafnframt var gefin heimild til þess fyrir þessa báta að leigja til sín og kaupa til sín úr stóra aflamarkskerfinu aflaheimildir, fiskveiðirétt. Af hverju var það gert? Jú, það var vísvitandi verið að búa til betri stöðu fyrir krókaaflamarkskerfið og fyrir því voru fyrst og fremst færð byggðarleg rök.

Það er alveg rétt, þessum bátum hefur fækkað, en er það endilega neikvætt? Er betra fyrir okkur að reyna að gera út tíu báta sem fiska 150 tonn eða einn bát sem fiskar 1.500 tonn? Ég er ekki í nokkrum vafa um það að forsendan fyrir því að þessir bátar hafa getað verið svona mikilvægir í hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu hringinn í kringum landið og sem heilsársstarfsemi er auðvitað sú að þeir hafa verið að auka sínar aflaheimildir hver um sig (Forseti hringir.) þó að það hafi hins vegar þýtt það, sem er alveg rétt, að bátunum hefur fækkað.