141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir tók nú eiginlega af mér spurninguna þannig að ég ætla aðeins að fá að spinna þráðinn áfram af þeirri umræðu sem hér hefur sprottið milli hennar og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Nú er það þannig að hv. þingmaður er borinn og barnfæddur í plássi sem var mikill útgerðarbær hér á árum áður, þar sem smjör draup af hverju strái, má segja, á blómatíma þess bæjar. Síðan var kvótakerfinu komið á, þessu kvótakerfi sem þingmaðurinn ver nú með kjafti og klóm, og mér finnst hálfátakanlegt að heyra hv. þingmann standa síðan hér í ræðustóli og býsnast yfir hugsanlegum áhrifum sem hann telur að geti komið til skerðingar eða orðið til verri vegar fyrir byggðarlög eins og á Vestfjörðum, þegar hann sjálfur tók þátt í því og hefur stutt það að kakan var tekin í burtu og molarnir skildir eftir.

Það er hlutskipti byggðarlaganna eins og Bolungarvíkur og því er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna hv. þingmaður stendur svo stífan vörð um þetta kerfi. Ég vil spyrja hv. þingmann, inna hann eftir því, ef hann bara horfir á sitt byggðarlag, Bolungarvík, þaðan sem hann raunar er fluttur en hefur búið og verið stóran hluta af sínu lífi, hverju hefur núverandi kvótakerfi skilað því byggðarlagi? Hvernig metur hann það? Þetta er samviskuspurning.