141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bý í Bolungarvík og þess vegna veit ég nákvæmlega hvernig mál hafa þróast þar. Bolungarvík hefur lifað sína góðu tíma, sína slöku tíma en það er hins vegar mjög ánægjulegt að sjá, meðal annars fyrir tilstyrk þessa krókaaflamarks sem ég var hér að tala um og línuívilnunar, að Bolungarvík hefur verið mjög að rétta úr kútnum. Sannleikurinn er sá, af því að það byggðarlag er sérstaklega tekið hér sem dæmi, að leita þarf æðilangt aftur, um áratugi, til að finna jafnstóra hlutdeild Bolungarvíkur í lönduðum afla og getur að líta þar nú.

Ungir menn hafa haslað sér völl innan þessa kerfis og byggt upp kraftmikla útgerð en ein forsendan fyrir því hefur verið þetta framsal sem við ræddum hér áðan við hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir þar sem menn hafa verið að leyfa þetta framsal innan krókaaflamarksins sem hefur gert það að verkum að hægt hefur verið að halda þar úti heilsársútgerð með hinum minni bátum, þessum minni og öflugu bátum. Ég held því að það dæmi sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tekur af heimabyggð minni sé kannski gott dæmi um það að það eru líka tækifæri í þessi fiskveiðistjórnarkerfi fyrir minni byggðirnar.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að vel sé réttlætanlegt að taka hlut af fiskveiðiréttindum og ráðstafa honum með öðrum hætti, til dæmis í gegnum krókaaflamarkið, til dæmis í gegnum byggðakvóta að einhverju leyti, til dæmis með línuívilnun. Því er það mér algerlega óskiljanlegt hvernig gengið er fram í frumvarpinu, að verið er að veikja þó þá varnagla sem við höfum í fiskveiðistjórnarkerfinu, þessi forskot sem við höfum búið til fyrir minni útgerðirnar og minni staðina, og síðan er mönnum vísað inn í kvótaþing þar sem ekki verður á vísan að róa, þar sem menn geta boðið í fiskveiðirétt til eins árs í senn, þar sem ekki er gert ráð fyrir þessari svæðaskiptingu nema hvað varðar þau einstöku byggðarlög sem hafa orðið verst úti.

Þannig að ég segi: Margt má finna í byggðarlegu tilliti að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en hér værum við sannarlega að fara úr öskunni í eldinn og meira en það.