141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og staldra aðeins við það sem hv. þingmaður nefndi um það frumvarp sem hún flutti ásamt nokkrum öðrum hv. þingmönnum og snýr að strandveiðum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að núverandi fyrirkomulag búi til ákveðna mismunun. Hv. þingmaður sagði það í ræðu sinni að hún vildi að það yrði afgreitt samhliða þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þingmann af hverju ekki má afgreiða það mál sérstaklega sem búið er að mæla fyrir og er löngu komið inn í þingið.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem snýr að þeirri breytingu sem á sér stað þegar ein tegund úthlutunar, þorskurinn, er komin í 240 þús. tonn þá fari 50% inn á leyfi 2, leigupottinn, kvótaþingið eða hvað sem menn kalla það. Ef ég skil þetta rétt er væntanlega verið að hugsa um meðaltalsveiðina einhver ár aftur í tímann og þess háttar. Þegar menn miða við hana segja þeir: 240 þús. tonn af þorski? Þá er eðlilegt að það fari inn í svokallað kvótaþing.

Hver er ástæðan fyrir því að það á ekki við um aðrar tegundir, af hverju bara þorskinn þar sem mestu skerðingarnar eru og þar sem alla tíð hefur þurft að borga bætur þó að ekki hafi verið stigið skref í þá átt núna? Af hverju eru þá ekki allar aðrar tegundir þar inni, þ.e. meðaltalið, sem er væntanlega fundið út frá þorskveiðiheimildunum? Af hverju gegnir ekki sama máli með aðrar tegundir? Það er auðvitað réttlætismál að þeir sem eru með ákveðna viðmiðun muni þurfa að setja inn í svokallað kvótaþing, gangi það eftir, á miðað við þá meðaltalsveiði sem verið hefur undanfarin ár.