141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt til viðbótar sem er í 19. gr., þ.e. ráðstöfun til kvótaþingsins sem slíks. Hv. þingmaður ítrekaði það í ræðu sinni að þetta væri opinn, virkur uppboðsmarkaður án afskipta ráðherra, en í greininni stendur að hægt sé að skilyrða úthlutun úr kvótaþingi, þ.e. að í reglugerð er heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunar við útgerðir sem staðsettar eru á tilteknum landsvæðum o.s.frv.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að ráðherra, hver sem hann er á hverjum tíma, fái allt of mikil völd eina ferðina enn. Það er ágætt að rifja upp hvað gerðist í sambandi við svokallaðar strandveiðar þegar búið var að skipta svæðinu í fernt og þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason færði línuna eins og honum datt í hug, hann tók stóran hluta af Norðurlandi vestra og færði í annað svæði.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að hér sé enn eina ferðina verið að láta hæstv. ráðherra hafa allt of mikil völd, óháð því hver ráðherrann er á hverjum tíma. Fyrirkomulagið þarf að vera í fastari skorðum en það er nú.

Eins er hægt að spyrja um það sem snýr að endurúthlutun á nýtingarsamningunum. Nú getur ráðherra tekið tillit ýmissa þátta eins og aldurs manna og hvað þeir hafa verið að gera og svo framvegis, sem er auðvitað alveg fáránlegt. Ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir. En aðalatriðið er: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að hér sé enn eina ferðina verið að gefa hæstv. ráðherra of mikið vald?