141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í grundvallaratriðum hlynntari opnum markaði en handstýringu ráðherra í þessu sem öðru. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns. Það á að vera grundvallarsjónarmiðið en eins og málum er háttað er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því sem getur gerst í byggðarlögum þegar um er að ræða sölu aflaheimilda úr byggðarlögum og frá byggðarlögum. Ég hef líka upplifað það í nágrannabyggðarlögum mínum hvaða þýðingu slíkt getur haft til hins verra. Þar af leiðandi finnst mér ekki hægt að gagnrýna það harkalega þó að sett sé ákveðið öryggisnet þar undir eins og gert er í 19. gr., að ráðherra hafi möguleika sem fulltrúi hins pólitíska valds til að grípa inn í ef neyðarástand skapast í byggðarlagi vegna þess t.d. ef allar aflaheimildir streyma þaðan út á einni nóttu, eitthvað því um líkt.

Hins vegar er grundvallarsjónarmiðið að það á, eftir því sem unnt er, að draga sem mest úr handstýringu pólitískra afla og leyfa hinum heilbrigðu, eðlilegu leikreglum að hafa sinn gang eftir því sem hægt er, en öryggisnetin verðum við auðvitað að hafa til staðar.