141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við munum, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og ég, fengu fyrri fiskveiðistjórnarfrumvörp hæstv. ráðherra nánast falleinkunn þegar þau komu til umsagnar í atvinnuveganefnd og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það var eiginlega alveg sama hvar borið var niður, hvort hagfræðingar veltu fyrir sér þjóðhagslegu gildi frumvarpanna, hvort þeir sem voru sérfræðingar á byggðalegu sviði veltu fyrir sér hinum byggðalegu áhrifum frumvarpanna eða hvort þeir sem t.d. töluðu máli hinna grænu gilda í umgengni um fiskstofnana veltu frumvörpunum fyrir sér; alls staðar var það á sömu lund með fáeinum undantekningum og varla nokkur sem steig fram og sagði: Þetta er nákvæmlega það sem ég hef beðið eftir.

Allar þessar upplýsingar liggja fyrir. Öll þessi gögn liggja fyrir. Öll þessi gagnrýni liggur fyrir. Nú koma menn fram með þriðja frumvarpið og ég spyr: Hvað sér hv. þingmaður í þessu frumvarpi sem komið hefur sérstaklega til móts við hina viðurhlutamiklu gagnrýni á ýmsum sviðum, á þýðingarmiklum sviðum; þjóðhagslegum, byggðalegum og umgengnislegum sviðum? Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli því að við ræðum frumvarp sem mér sýnist í meginatriðum vera mjög svipað því frumvarpi sem við fjölluðum um í atvinnuveganefnd á síðasta ári en var ekki afgreitt sem betur fer.

Nú er gert ráð fyrir, eins og fram kom í orðaskiptum áðan, að þarna sé sérstakt varnaglaákvæði, sem er reyndar í gildandi lögum, varðandi það þegar um er að ræða sölu á 20% aflaheimilda eða meira úr byggðarlagi eða ef hætta er á því, sé möguleiki á að stíga þar inn. Í fyrra frumvarpi var gert ráð fyrir því að það væri nánast síðasta úrræðið. Áður ætti að leita forkaupsréttar innan héraðs og síðan að athuga það á héraðsvísu (Forseti hringir.) o.s.frv. En hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir því. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að horfið er frá því að (Forseti hringir.) gefa heimamönnum kost á því að stíga (Forseti hringir.) inn í með kaup á þessum aflaheimildum?