141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnrýnin kom úr ýmsum áttum. Hún var að verulegu leyti pólitísks eðlis og að verulegu leyti hagsmunatengd. Við skulum bara vera sanngjörn; þeir sem harðast gengu fram í gagnrýni sinni höfðu margir hverjir „agendu“ með því sem þeir sögðu og settu fram. Ég get nefnt dæmi sem mér er mjög minnisstætt, það var gagnrýni bankastofnana á frumvarpið. Maður sá síðan í smáa letrinu þegar betur var lesið að þeir gerðu ráð fyrir því að enginn fiskur yrði veiddur á Íslandsmiðum eftir 20 ár, að öllu yrði lokið eftir 20 ár.

Það var ein forsendan og svo var um margt sem fram kom í gagnrýninni sem olli því að ekki var hægt að fallast á hana. (EKG: Ómarktæk.) Að sumu leyti. Sumt af því sem fram kom var ekki hægt að fallast á af pólitískum ástæðum og eins af sanngirnisástæðum. Sumt af því voru kenningar eins og til dæmis þær að nær væri að styrkja byggðarlögin með framlögum, með ölmusu en að leyfa þeim að bjarga sér sjálfum. Þarna er ég í grundvallaratriðum algjörlega ósammála. Ég held að ég geti mælt fyrir munn beggja stjórnarflokka þegar ég segi að það sé ekki hið eðlilega sjónarmið og það er ekki það sem maður hefði fallist á. Það var margt af þeim toga í umsögnunum sem gerði það að verkum að það var ákvörðun að taka það ekki allt saman til greina, enda hefði það verið að æra óstöðugan að ætla að eltast við það allt.