141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú horfum við upp á þriðju útgáfu og þá væntanlega lokasvar hv. ríkisstjórnarflokka þegar kemur að því að gera grundvallarbreytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Fyrri tilraunir hafa mistekist hrapallega. Það er með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún fer yfir þá miklu gagnrýni sem kom fram á þau frumvörp sem áður hafa verið tekin til ítarlegrar umfjöllunar í þinginu og fengið mjög faglega málsmeðferð af hálfu hv. atvinnuveganefndar — okkar bestu sérfræðingar á sviði auðlindanýtingar fengnir til að fjalla um málið auk fjölmargra hagsmunaaðila og virtra endurskoðenda — að hv. þingmenn standi hér upp og segi að gagnrýnin sé pólitísks eðlis eða hagsmunatengd. Það er ekki viðurkennt að um sé að ræða hlutlausa úttekt þessara manna heldur eru þeir í pólitískum hráskinnaleik og eru að reka hagsmuni einhverra. Það er ekki von að við getum náð langt þegar svona er fjallað um þetta.

Þetta er þriðja tilraun, virðulegi forseti, eins og ég kom inn á áðan, og það hljómar í gegn hversu ósamstæðir ríkisstjórnarflokkarnir eru þegar kemur að þessu mikilvæga máli, búnir að hafa allt kjörtímabilið undir til að standa við þær stóru heitingar sem þeir hafa haft í þessum málaflokki á undanförnum árum, mér liggur við að segja áratugum, búnir að hafa heilt kjörtímabil til þess og gjörsamlega búnir að klúðra málinu. Það er auðvitað í ætt við annað sem við sjáum í stórum málum. Við horfum upp á það hvernig er að fara í þessu stjórnarskrármáli og allt er það út af innbyrðisdeilum þessara flokka, milli einstakra þingmanna innan flokkanna og á milli þeirra.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði orð á því hér fyrir rúmu ári að þegar hann settist í stól ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu mundi taka svona þrjár vikur að skrifa nýtt frumvarp. Hann hefur heldur betur rekið sig á vegg og honum er örugglega vorkunn. Þegar maður hlustar síðan á málflutning ákveðinna þingmanna er þess ekki að vænta að þeir sem vilja nálgast þetta á faglegum nótum, eins og ég gef mér að ráðuneytið vilji gera, geti náð langt þegar viðhorfin eru eins og þau endurspeglast í umræðum sumra hv. þingmanna úr stjórnarflokkunum.

Það hefur verið niðurstaða þeirra sérfræðinga sem fjallað hafa um þessi mál að yrðu þau að lögum hefði það mjög neikvæð áhrif á íslenskan sjávarútveg, afkomu hans og getu til að byggja upp lífskjör í landinu, vera sú undirstöðuatvinnugrein sem hann hefur verið og verður í samfélagi okkar um nána framtíð og um langa framtíð. Þetta er allt gert undir því fororði að það eigi að auka hag þjóðarinnar, það eigi að auka hlut þjóðarinnar af afrakstri þessara greina. En auðvitað liggur hagur þjóðarinnar í því að hér sé rekinn arðbær sjávarútvegur og það kemur fram í markmiðssetningu þessa frumvarps, þegar það er lesið, að meðal annars eigi það að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu. Það kemur líka fram að auka eigi vægi jafnræðissjónarmiða við ráðstöfun aflaheimilda og treysta atvinnu og byggð í landinu, stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Í ljósi þessara háleitu markmiða hljótum við í hv. atvinnuveganefnd að þurfa að leggjast í heilmikla vinnu yfir þessu frumvarpi sem í senn er reyndar talað um af hv. stjórnarliðum og hæstv. ráðherra að sé að grunninum til það sama og síðast, en þó sagði hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir í ræðu sinni áðan að það hefði tekið miklum breytingum og þær breytingar hlýtur að þurfa að meta.

Frumvarpið er ekki málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða. Ég held að við getum fullyrt að það er málamiðlun á milli stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna innan þeirra. Það hefur komið fram í fjölmiðlum, í máli ákveðinna þingmanna innan stjórnarflokkanna, að því sé svo farið. Það vita allir sem hafa fylgst með þessu og þekkja til málsins að í því hefur vinnan verið fólgin undanfarnar vikur og mánuði að reyna að ná einhverri sátt meðal þessa fólks en ekki þeirra sem skulu vinna eftir frumvörpunum, eftir þeim reglum sem í þeim liggja.

Það er alveg ljóst að þetta mun leggjast sérlega þungt á þorskveiðiútgerðir og þar með þau byggðarlög sem eru kannski hvað veikust fyrir. Það hefur komið í ljós, þegar fyrsta reynsla okkar er fengin af svokölluðu veiðigjaldi eða þessari viðbótarskattheimtu á sjávarútveginn, hversu mjög misjafnlega útgerðarformin eru í stakk búin til að mæta henni. Það liggur fyrir að þau stóru fyrirtæki sem eru í blandaðri starfsemi bolfiskveiða og uppsjávarveiða, eða þau fyrirtæki sem byggja afkomu sína að mestu á uppsjávarveiðum, eru miklu betur í stakk búin til að takast á við veiðigjaldið en hinar fjölmörgu litlu og meðalstóru útgerðir sem eru burðarásinn í atvinnulífi landsbyggðarinnar og byggja afkomu sína á bolfiskveiðum. Þetta hefur komið í ljós.

Nú skal hoggið áfram í sama knérunn. Það er ekkert hægt að lesa annað út úr þessu en að áfram verði hoggið í sama knérunn og í fljótu bragði blasa afleiðingarnar við. Auðvitað þurfum við að fara betur yfir það hversu alvarlegar þær eru, hvers megi vænta, en í fljótu bragði blasa afleiðingarnar við. Það sem við heyrum í dag úr þeim geira, t.d. frá Landssambandi smábátaeigenda og fulltrúum útgerða sem ekki eru með fiskvinnslu, er að menn horfa í stórum stíl til þess hvernig þeir geti komið sér út úr greininni verði ekki breyting á, hvernig þeir geti selt rekstur sinn. Þar með mun hefjast sú þróun að nýju þar sem ákveðin samþjöppun aflaheimilda verður til þeirra sem sterkari eru. Ekki er hægt að gera sér fyllilega grein fyrir því hverjar afleiðingarnar verða á einstökum stöðum en þær geta orðið mjög alvarlegar.

Í frumvarpinu eru bráðabirgðaákvæði þar sem mælt er fyrir um að ráðherrar skuli setja á fót nefnd með aðild Samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem geri tillögur um ráðstöfun teknanna af þessari leigu ríkisins á aflaheimildum. Í umsögn á vegum fjármálaráðuneytisins er gagnrýnt hvernig að þessu er staðið og þar kemur meðal annars fram að engin ákvæði séu í frumvarpinu til að stofnsetja umræddan sjóð á vegum ráðherra og ekki virðist heldur gert ráð fyrir að honum verði skipuð stjórn — svo að ég vitni beint í umsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Þá eru ekki heldur ákvæði um hvernig markaðs- og þróunarsjóði verði komið á fót eða til að kveða á um hvort um verði að ræða ríkisaðila eða sjóð á vegum sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Telja má að í þessum ákvæðum felist ekki fullnægjandi fyrirsögn um með hvaða hætti fjármunum ríkisins verði varið til þessara verkefna.“

Þetta segir okkur að þrátt fyrir einhverjar hugmyndir um að þetta geti nýst þeim sveitarfélögum sem kunna að lenda verst í þessu að þá er það allt mikilli óvissu háð hvernig skipulagið verður á þeim málum. Ætlunin er að ráðstafa um 40% af tekjunum til sveitarfélaga en ekki er tilgreint hvernig framlög til sveitarfélaganna eiga að tengjast opinberum verkefnum þeirra eða fjárhagsstöðu. Fjármálaráðuneytið segir að ástæða virðist til að huga að samhengi þessara áforma við þá stjórnskipan fyrir stjórnsýslustig hins opinbera sem er til staðar í landinu. Sú skipan felur í sér skýrt og afmarkað tekjuöflunarkerfi og fjárstjórnarvald sem skoða þarf hvort verið er að gera flóknara með þessum breytingum; það telur líka að ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í lögum um tekjustofna séu óaðskiljanlegur hluti af þessu fyrirkomulagi.

Þrátt fyrir einhver markmið á þessum vettvangi er greinilegt að þetta er mikilli óvissu háð og mikið vald er sett í hendur ráðherra á hverjum tíma. Það er gagnrýnisvert að málið skuli ekki vera vandaðra en svo að við skulum skilja eftir margar spurningar sem væri þá ósvarað ef kæmi til afgreiðslu þessa frumvarps. Þannig er verið að vísa mikilli óvissu inn í framtíðina og það er það sem hefur einkennt umfjöllun ríkisstjórnarflokkanna á kjörtímabilinu um þetta mikilvæga mál og þessa mikilvægu atvinnugrein, þetta hefur allt verið í mikilli óvissu sem hefur leitt af sér miklu minni fjárfestingar og skapað mikið óöryggi víða um land.

Ætlunin er að tvöfalda það magn sem nú fer til ráðstöfunar utan aflahlutdeildarkerfisins og það mun þýða skertar heimildir hjá þeim sem eru með kvótaréttinn í dag, veiðiréttinn í dag. Þetta veikir, eins og ég hef komið inn á, mjög útgerðirnar og þegar við fjölluðum um þennan þátt á fyrri stigum var bent á það af hálfu sérfræðinganna að ef svona aðferð yrði beitt mundi það ganga frá mörgum útgerðarfélögum, þau mundu hreinlega ekki lifa þetta af. Það gengur þá í algjört berhögg við markmiðsgrein frumvarpsins sem er mjög göfugt markmið og vel sett fram en virðast þá ekki í þessu frumvarpi vera í neinu samhengi við innihald málsins. Ég held að enn og aftur bíði mikil vinna hv. atvinnuveganefndar.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði, að málið hefði tekið miklum breytingum. Við erum að fara að skoða þær núna. Málið kemur til atvinnuveganefndar og það er einboðið að við hljótum að þurfa að fara í svipað ferli og við fórum í síðast vegna þessara miklu breytinga. Það hlýtur að þurfa að endurmeta málið út frá þeim miklu breytingum sem stjórnarliðar telja sig hafa gert á því til að mæta þeirri gagnrýni sem áður hefur komið fram.

Þá veltir maður því fyrir sér hvort það er einhver alvara að leggja þetta fram núna, hvort það er einhver alvara af hálfu ríkisstjórnarflokkanna með framlagningu þessa máls núna á lokametrum þingsins. Það eru auðvitað vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að meira og minna allt kjörtímabilið í þessu máli um fiskveiðistjórnarkerfið sem og í öðrum málum. Við höfum yfirleitt verið að vinna þetta í miklu tímahraki og endað uppi á skeri. Ég hefði nú haldið að menn hefðu látið þá lexíu sér að kenningu verða en það virðist ekki vera ef mönnum er einhver alvara í því að ætla að ljúka þessu. Ég bara hef enga trú á að það sé markmiðið. Ég held að þetta sé málamiðlun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að koma fram með þetta mál núna. Það er alveg ljóst að í eðlilegu umsagnarferli (Forseti hringir.) og eðlilegri vinnu í kringum þetta mál dugar tíminn okkur engan veginn (Forseti hringir.) til að ná í höfn með þær breytingar sem hér er verið að leggja á borðið.