141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Nú hefjum við umræðuna hér um fjórðu aðför ríkisstjórnarinnar að einum helsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það er svolítið sérstakt að á lokadögum þessa þings skuli ríkisstjórnin velja að koma með slíkt umdeilt mál inn til þingsins. Maður gæti alveg hikstalaust velt fyrir sér hvort að baki sé raunverulegur vilji til að klára þetta.

Ef maður les markmiðskafla laganna er hann sá sami, held ég að ég geti fullyrt, nema orðalagsbreytingar um nytjastofna á Íslandsmiðum sem séu sameiginleg eign. Markmiðin eru mjög háleit, ég held að allir geti tekið undir að þau séu mjög mikilvæg, eins og að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland, stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, treysta atvinnu og byggð, auka jafnræðissjónarmið við ráðstöfun aflaheimilda, hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni, tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu og að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Allt þetta getum við skrifað upp á og orðið sammála um.

Ég hef rætt það við fyrri tilraunir ríkisstjórnarinnar til að koma fiskveiðifrumvörpum sínum í gegnum þingið að ég hef saknað áherslu á nýsköpun. Það orð kemur hvergi fyrir í markmiðskafla laganna. Ekkert er heldur minnst á nýliðun í honum og ekkert er um aukna nýtingu hráefnis, eins og gjarnan er gert í sjávarútveginum sjálfum eða um að auka nýtingu á ónýttum eða vannýttum stofnum.

Ég verð að segja alveg eins og er að það undrar mig að ríkisstjórnin skuli koma með slíkt plagg enn og aftur hingað án þess að taka á þessum þáttum þar sem sjávarútvegurinn sjálfur er í sjávarklasanum og samstarfi fyrirtækja akkúrat að fara þessar leiðir. Þeir sem eru að tala um aukna verðmætasköpun í samfélaginu horfa til þess að nýsköpun í þessum geira sé auðveldari en í mörgum öðrum geirum vegna þess að þekkingin í honum er svo mikil. Ef við heimsækjum sjávarklasann niðri við Grandagarð sjáum við þar um 40 fyrirtæki saman að störfum þar sem þau leiða saman hesta sína, koma úr ólíkum áttum og munu auka verðmæti sem tengjast sjávarútvegi gríðarlega í útflutningi, en ekki í veiðum og ekki í vinnslu. Enn og aftur virðast stjórnarflokkarnir halda að sjávarútvegur snúist einungis um veiðar og vinnslu en ekki alla keðjuna, markaðssetninguna, tækniþekkinguna, hliðarfyrirtækin í greininni og alla þá þætti sem gera það að verkum að sjávarútvegurinn einn og sér er gríðarlega stór ef hann er skilgreindur mjög þröngt, mjög stór atvinnugrein í landinu. Ef allt er tekið með er hann okkar langmikilvægasta atvinnugrein.

Ég vil nota tækifærið og minna á stefnu okkar framsóknarmanna þar sem við leggjum gríðarlega áherslu á nýsköpun í okkar drögum. Á nýafstöðnu flokksþingi okkar um helgina var áréttuð sú stefna sem við lögðum í sjávarútvegsmálum árið 2011, áréttað enn frekar hversu mikilvægt það er að horfa til nýsköpunarinnar og verðmætaaukningarinnar og að setja á laggirnar einhvers konar verkefni, atvinnusköpunarverkefni, þróunarverkefni, sem beindust að því að nýta vannýttar tegundir. Til dæmis gæti kúfiskstofninn við landið verið það stór að við gætum verið að tala hér um veruleg umsvif hringinn í kringum landið og annað í þeim dúr.

Við höfum líka lagt til að í byggðaaðgerðunum yrðu farnar aðrar leiðir en hér er lagt til. Við lögðum til að mynda til að byggðakvótanum yrði úthlutað til fiskvinnslnanna en ekki með þeim hætti sem við þekkjum í dag. Það sem ég ætla að leggja aðaláherslu á í þessari stuttu 1. umr. er að mér finnst að þeim athugasemdum sem atvinnuveganefndin fékk við síðasta frumvarp og þeirri vinnu sem við lögðum í þar hvergi svarað nægilega vel. Það er vissulega rétt að nokkra af verstu ágöllunum sem voru á frumvarpinu í vor er búið að sníða af. Ef við trúum því sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja meina, að þeir vilji gera allt sem þeir geta til að styrkja byggðirnar í landinu, verður maður að spyrja sig hvort þessar leiðir séu góðar til þess. Í því skyni ætla ég að vitna til Þórodds Bjarnasonar, prófessors og stjórnarformanns Byggðastofnunar, sem gagnrýndi harðlega fyrra frumvarp. Hann stendur væntanlega enn við þá gagnrýni því að enn og aftur er hið sama gert. Í ágripi af grein hans í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál frá því í desember segir að hnignun íslenskra sjávarbyggða eigi sér almennar skýringar á borð við auknar kröfur um þjónustu, hækkandi menntunarstig og sérhæfðara vinnuafl og sértækar skýringar á borð við aflasamdrátt, samþjöppun og breytingar í fiskvinnslu og aukinn útflutning á ferskum fiski. Neikvæð áhrif núverandi fiskveiðistjórnarkerfis á sjávarbyggðir felist einkum í breyttu skipulagi veiða og vinnslu, samdrætti aflaheimilda og óvissu um framtíðina sem dragi úr byggðafestu.

Síðan segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Sé pólitískur vilji til að verja hagsmuni sjávarbyggða er nauðsynlegt að skilgreina slíkar sjávarbyggðir og hagsmuni þeirra með skýrum hætti. Sjávarbyggðir á Íslandi eru of margar og dreifðar til að útgerð geti staðið undir þeim öllum, en með eflingu stærri sjávarbyggða og klasa smærri þorpa gæti sjávarútvegur verið ein meginstoð margra atvinnusvæða um allt land. Til þess þurfa útgerðir að sjá hag sinn í eflingu útgerðarsvæða, t.d. með því að tiltekinn hluti aflaheimilda verði svæðisbundinn í stað núverandi mótvægisaðgerða. Þannig yrði kostnaður þjóðfélagsins af því að taka tillit til hagsmuna sjávarbyggða sýnilegur og leyst væri úr ætluðum fórnarskiptum milli hagkvæms rekstrar og byggðasjónarmiða án þess að leggja auknar byrðar á útgerðina. Hins vegar þarf að grípa til markvissari aðgerða ef veikburða sjávarbyggðir utan stærri atvinnusvæða eiga ekki að leggjast af.“

Ég vil minna á þær hugmyndir sem hann var með í umræðunni í vor um að annars vegar yrði aflaheimildum úthlutað óskilyrt, eins og við þekkjum í dag í aflahlutdeildarkerfinu, og hins vegar skilyrt. Til dæmis mætti setja skilyrði um að það ætti að landa á tilteknum stöðum, það ætti að landa og vinna á tilteknum stöðum og annað í þeim dúr þannig að menn viðhéldu markaðs- og aflahlutdeildarkerfinu sem er í dag en væru ekki með látlaust pólitískt inngrip með markmiðum sem í sjálfu sér eru góð en munu augljóslega aldrei nást.

Ég ætla líka að koma aðeins inn á þjóðhagslega hagkvæmni sem við framsóknarmenn leggjum gríðarlega áherslu á í okkar tillögum. Allir gagnrýnendur, hvort sem það eru sérfræðingar, ASÍ eða hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, hafa bent á að meginparturinn af því sem ríkisstjórnin leggur til dregur úr þjóðhagslegri hagkvæmni fiskveiða við landið.

Þá ætla ég að vitna hérna í grein eftir Ögmund Knútsson, Daða Má Kristófersson og Helga Gestsson úr Tímariti um viðskipti og efnahagsmál, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur hefur nokkra sérstöðu samanborið við sjávarútveg nágrannaþjóðanna hvað varðar arðsemi. Margir hafa bent á að fyrirkomulag fiskveiðistjórnar hefur áhrif á rekstrarhegðun útgerðarfyrirtækja og þar með afkomu þeirra. Afar mikilvægt er, þegar hugað er að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, að fyrir liggi hvað það er sem leitt hefur til góðrar afkomu í íslenskum sjávarútvegi. Mikilvægt er að breytingar á kerfinu tryggi áframhald þessarar miklu verðmætasköpunar.

Fyrri rannsóknir höfunda hafa bent til þess að þeir þrír ytri þættir sem hafa haft hvað mest áhrif á árangur virðiskeðjunnar hérlendis séu afnám útflutningshindrana, fiskveiðistjórnarkerfið og stofnun fiskmarkaða á Íslandi. Niðurstöður rannsókna benda til þessa að fiskveiðistjórnarkerfið auki skilvirkni virðiskeðjunnar með því að draga úr sóknarkostnaði, auka sérhæfingu í veiðum, skapi hvata til að auka verðmæti afla og tryggi stöðugleika framboðs hráefnis.“

Ég ætla aðeins að vitna áfram til Daða Más sem benti á að íslenskur sjávarútvegur væri markaðsdrifin virðiskeðja en til að mynda í Noregi sé veiðidrifin virðiskeðja. Mismunurinn er ávinningur íslenskum aðilum í hag, um 10 milljarða meira virði úr sjávarútveginum en er í Noregi. Þetta er skapað með fjárfestingum, m.a. af kvóta, markaðssókn, mannauði og tækni. Þetta er þar af leiðandi ekki auðlindarenta en það vantar hins vegar algjörlega í hugmyndir ríkisstjórnarinnar að taka þann fjármagnskostnað sem tengist þessum kostnaði sjávarútvegsfyrirtækjanna inn í kostnað fyrirtækjanna sem raunkostnað og þess vegna eru veiðigjöldin sem við þekkjum í dag hreinasti ofskattur.

Sérfræðingar hafa fjallað aðeins um þetta frumvarp í fjölmiðlum og áðurnefndur Daði Már Kristófersson var í fréttum á RÚV sem ég ætla að vitna til, þá til umsagnar hans frá fyrravori. Hún var mjög harðorð. Nú segir hann að búið sé að sníða ýmsa vankanta af þessu frumvarpi og ákvæði um svonefnt kvótaþing feli þó fyrst og fremst í sér tekjuöflunarleið fyrir ríkið. Síðan fjallar hann aðeins um greinarnar í því og segir að nýja frumvarpið sé skref í rétta átt. Ólíklegt sé þó að stjórnvöld nái með því markmiðum sínum á borð við eflingu byggða og nýliðun í sjávarútvegi. Hann segir að það sé svo skrýtið að þær breytingar allar hafi gert það að verkum með þau háleitu markmið sem sett eru með frumvarpinu að það verði alltaf minna og minna í frumvarpinu sem geri það líklegt að markmiðin náist. Jú, það sé vissulega skárra en það einhvern veginn hrópi á mann: Til hvers er verið að þessu?

Ég staldraði við þetta. Til hvers er verið að þessu þegar ljóst er að nánast allt sem stendur í frumvarpinu núna, nákvæmlega eins og í frumvarpinu í vor, fer þvert á þau markmið sem koma fram í 1. gr.? Hæstv. ráðherra svaraði mér í andsvari að það væri búið að setja sveigjanleika í kvótaþingið frá því í vor og þar með hefði verið hlustað á þá sérfræðinga sem gagnrýndu það harðlega. Það voru þeir Daði Már Kristófersson og Stefán B. Gunnlaugsson. Þeir sögðu, og þetta er á bls. 54 í kaflanum, að leigupotturinn mundi skapa ríkissjóði tekjur auk þess sem hann gæti aukið sveigjanleika veiða innan aflamarkskerfisins þar sem sjá mætti fyrir að leigumarkaður fyrir aflaheimildir dýpkaði. Mat þeirra var að slíkt gæti hugsanlega stutt við nýliðun í sjávarútvegi. Allt þetta telja þeir þó háð því að kvótaþing starfi með eðlilegum hætti, án pólitískra afskipta.

Þess vegna vitna ég til þess að í frumvarpinu er vald ráðherra allt of mikið og það á að vera svona hipsumhaps hvernig á að beita þessum leigupotti sem ríkið er með.

Ég ætla að enda þessa stuttu ræðu á athugasemdum mínum í trúnaðarmannahópnum í sumar um kvótaþingið. Þar sagði ég, með leyfi forseta:

„Ég tel vel koma til greina að koma kvótaþingi á fót (endurvekja það) sem vettvang útgerðaraðila til þeirrar verslunar með aflaheimildir sem ekki telst til beinna skipta. Kostir þess gætu meðal annars orðið gegnsæ viðskipti og raunhæfari verðmyndun á markaði. Ljóst er að leggja þarf áherslu á mikinn sveigjanleika þannig að stuðlað verði að bættri nýtingu aflaheimilda og áframhaldandi hagræðingu í sjávarútvegi.

Í frumvarpinu tel ég felast áform um „leigupott ríkisins““ — og það hefur verið staðfest hér í ræðum í dag — „sem mér hugnast ekki. Mat mitt og míns flokks er að nýting sjávarauðlindarinnar verði betri, þ.e. þjóðhagslegur ábati verði meiri, verði aflaheimildum sem lagt er til að ríkið úthluti um kvótaþing úthlutað beint til núverandi handhafa aflahlutdeildar.“

Sú sátt sem mér fannst vera alveg í farvatninu í vor og við það að nást milli allra stjórnmálaflokka í þinginu um að klára fiskveiðifrumvarpið í vor byggðist meðal annars á því að menn sættu sig við það að miklu minni hluti færi í pott 2 en hér kemur fram. (Forseti hringir.) Hér er stórfelld aukning á ferðum sem leiðir klárlega til þess að (Forseti hringir.) hér verður óhagkvæmara að gera út, minni þjóðhagslegur arður, minni tekjur, minni verðmætasköpun (Forseti hringir.) og lakari lífskjör í landinu.