141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem virðist blasa við í sjávarútveginum er að það hefur verið stöðug þróun í sömu átt að því leytinu að starfsfólki í hinum hefðbundna sjávarútvegi, fiskveiðum og fiskvinnslu, hefur fækkað. Það hefur auðvitað haft miklar byggðalegar afleiðingar. Ég hef í sjálfu sér ekki heyrt neinn tala um að æskilegt væri að snúa því öllu til baka, hafa fleira fólk sem ynni við að vinna úr jafnmörgum tonnum eða fiska jafnmörg tonn og við fiskum í dag, þannig að þróunin virðist vera í þá átt með tæknibreytingunum.

Það sem hefur verið bent á í því sambandi er að tækifærin í byggðunum felist miklu frekar í því að þar séu öflug sjávarútvegsfyrirtæki, þótt þau verði með samþjappaðri aflaheimildir á skip, og það geti síðan gefið þeim tækifæri til að fara í alls konar aðra vöruþróun og þróun á sínum fyrirtækjum og við sjáum mörg dæmi um það. Það hefur fyrst og fremst orðið fjölgun í afleiddum störfum sem tengjast sjávarútvegi, Marel, Skaginn og 3X Technology eru mjög góð dæmi um það en við sjáum líka mikla og athyglisverða þróun á sviði líftækni sem menn binda miklar vonir við. Ég nefni sem dæmi í því sambandi fyrirtæki eins og Codland í Grindavík sem hv. þingmaður þekkir örugglega til og Kerecis á Ísafirði og síðan mætti auðvitað nefna fleiri dæmi. Sjávarklasinn sem menn tala um þessa dagana er annað mjög skýrt dæmi um þetta. Alls staðar virðist forsendan vera sú að það séu til öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem séu stöðugt í vöruþróun.

Sér hv. þingmaður til dæmis einhverja stefnumörkun í frumvarpinu sem mun stuðla að þessari vöruþróun, að sjávarútvegsfyrirtækin fari síðan að auka fjárfestingu? Menn hafa einmitt verið að benda á að frumvarpið muni örugglega leiða til þess, a.m.k. í skammtímanum, að það dragi úr þeirri fjárfestingu sem er þó forsendan fyrir því að hægt sé að fjölga störfum í atvinnugreinum sem byggja á sjávarútvegi, (Forseti hringir.) þótt þau séu ekki í beinum sjávarútvegi sjálf.