141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hefur komið fram, það kom fram hjá verkalýðshreyfingunni í Vestmannaeyjum að þeir höfðu gert skoðanakannanir meðal starfsmanna í fiskvinnslu og kom í ljós að fólkið þar vildi frekar vinna hjá stærri fyrirtækjum, atvinnuöryggið var meira þar. Það vill vinna hefðbundna vinnu eins og hver annar, dagvinnu, en ekki vera í gamla vertíðarstílnum. Það vill hafa örugga fasta vinnu, vill geta gengið að henni á hverjum degi og það vill heldur ekki vinna allt of lengi á hverjum degi eins og kröfur í nútímasamfélagi eru um.

Það er líka rétt að flotinn er það stór í dag að hann gæti veitt miklu meira en hann gerir. Þess vegna finnst mér svo sérkennilegt að öll frumvörp ríkisstjórnarinnar snúist yfirleitt um það að fjölga skipum, auka kostnaðinn, taka atvinnuna af þeim sem hafa hana í dag og færa hana einhverjum öðrum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég get ekki skilið þá tilhneigingu — því það virðist vera að menn hafi hreinlega ekki eða vilji ekki, væntanlega af pólitískum ástæðum af því að ég býst við að fólk skilji þetta, að munurinn á því að hafa þá starfsemi sem við þekkjum hér á Íslandi svona með mun meiri arðsemi en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli í sjávarútvegi — að vera alltaf að höggva í þann sama knérunn að gera hann lakari.

Ég held að forsendur fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu hefðu átt að vera hvað það er sem gerir kerfið okkar gott og hvað við megum þar af leiðandi ekki eyðileggja. Mér finnst allt sem er í þessu frumvarpi, ég er kannski að taka fullmikið upp í mig með því að segja allt, en mér finnst markmið ríkisstjórnarflokkanna ævinlega snúast um það að uppfylla ekki markmið laganna, ganga á þjóðhagslega hagkvæmni og ganga það langt að fyrirtækin eigi hreinlega erfitt (Forseti hringir.) með að komast af.