141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mjög alvarleg staða er uppi í þinginu og það er ástæða til að taka undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan þegar hún ræðir um gjaldeyrishöftin og þann gríðarlega vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir í efnahagsmálum, vanda sem birtist okkur á hverjum degi í stöðu heimila, fyrirtækja og opinberra fyrirtækja eins og í heilbrigðisþjónustu.

Vandinn er gríðarmikill og þá erum við með tvö andvana mál á dagskrá í dag. Hverjum dettur í hug að bjóða upp á að það náist að afgreiða á þessu þingi stjórnarskrármálið eins og það er statt?

Við urðum vitni að því í gær þegar Hreyfingin setti ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og ríkisstjórnin fór á taugum sem og ríkisstjórnarflokkarnir. Kjarkurinn er ekki meiri. Það var boðið upp á að ræða einhverja skynsamlega niðurstöðu í því máli, ná sátt um að afgreiða einhver atriði sem menn gætu náð saman um fyrir þinglok en verður að hafa allt málið undir. Það er algjörlega útilokað og því mun aldrei ljúka hér.

Við urðum vitni að því hvernig þingmenn Hreyfingarinnar tóku ríkisstjórnina á beinið og hótuðu óbeint að koma með vantrauststillögu á stjórnina. Og ríkisstjórnarflokkarnir gáfu eftir. Nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp var lagt fram á þingi í gær — andvana fætt. Hverjum dettur í hug að það verði klárað á nokkrum dögum sem eru til kosninga? Þingið rís ekki undir þeirri ábyrgð sem það var kosið til og það verður að grípa inn í. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni (Forseti hringir.) upp á það að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni (Forseti hringir.) upp á þessi vinnubrögð lengur. Við skulum axla ábyrgð, hv. þingmenn, og fara að vinna þá vinnu sem við vorum kosin til að sinna.