141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins stórt viðfangsefni í samfélaginu, verðtrygginguna. Ég tek eftir því að á flokksþingi Framsóknarflokksins um síðustu helgi var ályktað sérstaklega um verðtrygginguna og ég fagna þeirri stefnumörkun sem þar birtist og óska framsóknarmönnum til hamingju með að hafa snúið baki við verðtryggingunni sem sett var á laggirnar 1979 með svokölluðum Ólafslögum og kennd við þáverandi formann Framsóknarflokksins. Ég er í hópi þeirra sem hafa verið talsmenn þess um langt skeið að afnema ætti verðtrygginguna en um leið geri ég mér grein fyrir því að það getur tekið tíma. Það þarf jafnvel að gera það í áföngum, en markmiðið hlýtur þó að vera eitt og hið sama, einkum að því er varðar almenn neytendalán. Mér finnst hins vegar þýðingarmikið að menn slái ekki ryki í augu fólks um það hvað um er að ræða og hvernig hægt er að gera þessa hluti.

Í fyrsta lagi verða menn að gera sér grein fyrir því, að mínu viti, að það þurfa að vera efnahagslegar aðstæður í samfélaginu til að afnema verðtrygginguna. Þær hafa að sjálfsögðu verið til staðar ef við lítum 20 ár aftur í tímann, t.d. í kringum aldamótin þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru við völd en þá var ekki notað tækifærið til að afnema verðtrygginguna. Það er kannski sumpart snúnara við þær aðstæður sem núna ríkja en þó ekki útilokað.

Í öðru lagi mega menn heldur ekki ganga með þá hugsun að þeir leysi hvers manns vanda með því að afnema verðtrygginguna og að vaxtabyrðin lækki eins og hendi sé veifað. Þannig er það ekki og menn verða að tala um hlutina eins og þeir sannarlega eru. Því miður finnst mér þau slagorð sem koma út úr flokksþingi Framsóknarflokksins hvað þetta varðar hljóma of vel til að geta verið raunveruleg. Það er ekki alveg í fyrsta skipti sem við sjáum það. Hver man ekki loforðið um 90% lánin sem Sjálfstæðisflokkurinn tók svo undir við stjórnarmyndun 2003 þó að hann vissi (Forseti hringir.) að það væri glapræði að ganga að því eins og það var? Það var samt gert í þágu þess að geta myndað ríkisstjórn. Þess vegna væri fróðlegt að heyra frá (Forseti hringir.) fulltrúum Framsóknarflokksins hvernig þeir sjá nákvæmlega fyrir sér afnám verðtryggingar, á hve löngum tíma, í hvaða skrefum (Forseti hringir.) og hvaða áhrif og afleiðingar það getur haft í för með sér.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti á tímamörkin.)