141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Vegna orða þess þingmanns sem talaði á undan mér er rétt að geta þess að honum er velkomið að lesa stefnuskrá Framsóknarflokksins hvenær sem er. Það er nokkuð merkilegt að hann virðist líka lesa vel bloggsíður því að málflutningur hans núna endurspeglaðist hjá einum bloggara. Hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni er hjartanlega velkomið að hitta okkur framsóknarmenn á fundi ef það er eitthvað óljóst í flokksþingsályktunum okkar.

Það er þó ekki það sem ég ætlaði að ræða í dag. Ég ætlaði að ræða stjórnarskrármálið og það uppnám sem varð í þinginu í gær. Í ljós komu einhverjir hnökrar á því að frumvarpið færi í gegnum þingið sem heildstætt plagg. Ég hef mjög lengi talað fyrir því að það væri ógjörningur að vinna málið með þeim hætti en það gerðust líka þeir atburðir í gær að álit Feneyjanefndarinnar kom hingað til lands og var sent nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — merkt sem trúnaðarmál. Allir eru að bíða eftir áliti Feneyjanefndarinnar á þessu frumvarpi sem að vísu fór út eftir að lögfræðihópurinn var búinn að gera sínar tæpu 75 breytingar á því, en þá kemur þetta í hús og er merkt trúnaðarmál.

Ég minni á að milli 1. og 2. umr. hefur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar jafnframt lagt fram 45 breytingartillögur á frumvarpinu þannig að nú þegar er búið að breyta því það mikið að líklega er álit Feneyjanefndarinnar á einhverjum stöðum orðið úrelt miðað við vilja meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er önnur saga. Hins vegar var það upplýst á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar rétt fyrir þennan þingfund að það ætti að aflétta trúnaðinum í þessum töluðu orðum. Því vil ég spyrja hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, (Forseti hringir.) Valgerði Bjarnadóttur: Hvers vegna í ósköpunum var ráðist í það að merkja álit Feneyjanefndarinnar trúnaðarmál þegar það barst þinginu?