141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Upplýsingar eru lykillinn að því að við náum einhverjum framförum. Upplýsingarnar eru lykillinn að því að við sem hér sitjum getum tekið yfirvegaðar ákvarðanir á réttum forsendum.

Þess vegna er mjög undarlegt að upplifa æ ofan í æ á þessu kjörtímabili að það sé verið að reyna að halda upplýsingum frá okkur þingmönnum. Þess vegna skil ég ekki þá ákvörðun sem tekin var í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær um að senda álit Feneyjanefndarinnar, þegar það kom loksins, álitið sem við öll höfum hér verið að bíða eftir að fá að lesa, til nefndarmanna bundið trúnaði — á þeim forsendum að það sé á ensku.

Ég kannast hvorki við heimild fyrir þessu í þingsköpum né að það sé einhver venja í þinginu að halda því fram að við, íslenskir þingmenn, kunnum ekki að lesa skjöl á ensku og þess vegna varði það því að skjöl skuli bundin trúnaði. Þetta er þá einhver ný regla sem ég kannast ekki við. Ég óska eftir því, frú forseti, að þetta verði tekið fyrir í forsætisnefnd og það rætt hver það er sem tók þessa ákvörðun og á hvaða forsendum það var gert.

Getur verið að það hafi verið ætlunin að halda þessum gögnum lengur frá okkur en raun ber nú vitni? Ég man eftir máli sem hét Icesave, þar áttum við ekki að fá að sjá ákveðin plögg, m.a. samninginn sjálfan. Á endanum voru ákveðin gögn sett í trúnaðarmöppu sem við máttum lesa inni í ákveðnu herbergi, gott ef þau voru ekki á ensku, stórhættuleg skjöl.

Frú forseti. Þetta gengur ekki, það gengur ekki að við komum svona fram hvert við annað, það gengur ekki að formenn nefnda beiti valdi sínu á þennan hátt, neiti fólki um gögn, neiti fólki um aðgang að upplýsingum. Þetta er algjörlega út í bláinn og gengur ekki upp. Þetta skulum við stoppa strax og ég krefst þess að þetta verði tekið fyrir á fundi forsætisnefndar á mánudaginn.