141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er erfitt að átta sig á störfum þingsins þessa dagana. Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar sagði í fréttum ekki fyrir löngu að hann ætlaði að taka upp ný vinnubrögð í þinginu, hann ætlaði að hefja samræðustjórnmál, reyna að ná sátt í málum, talaði meðal annars um að í stjórnarskrármálinu ættum við að reyna að ná víðtækri sátt. Svo kemur starfandi formaður, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, slær þetta út af borðinu og það virðast vera innanflokksátök í öllum málum, innanflokksátök um það hvernig dagskránni á að vera háttað, hvaða mál á að setja hér á oddinn (Gripið fram í: Hvaða flokks?) og í skugga — (Gripið fram í: Hvaða …?)

Frú forseti. (Gripið fram í: … flokksbrot.) Í skugga þessara innanflokksátaka er heilbrigðiskerfinu að — (Gripið fram í.)

Frú forseti. Get ég fengið frið hér til að tala? (MÁ: Getur hann ekki skýrt mál sitt?) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Gefið ræðumanni hljóð.)

(Gripið fram í.) Í skugga þessara innanflokksátaka (Gripið fram í.) sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarið — (Gripið fram í: Innan hvaða flokks?)

Frú forseti. [Hlátur í þingsal.] (EyH: Jafnaðarmannaflokkurinn.) Þingmennirnir geta eiginlega deilt við sjálfa sig hér þannig að það eru einnig innanflokksátök í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna.

Í skugga þessara innanflokksátaka horfum við upp á það að heilbrigðiskerfi landsins laskast og heilbrigðisstarfsmennirnir eru að flýja land. Skuldsett heimili ná ekki endum saman og (Gripið fram í: … Framsóknarflokksins.) ríkisstjórnin setur ekkert af þeim málum á oddinn.

Setur ríkisstjórnin málefni heimilanna á oddinn? Hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á þetta og hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á þetta hér áðan. Það virðist sem einstaka hv. þingmenn eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson séu að byrja að átta sig á þessu. Er ekki kominn tími til þess að við setjumst núna niður, förum yfir þessi mikilvægu mál sem meðal annars skuldamál heimilanna eru, (Forseti hringir.) verðtryggingin og önnur slík mál, og reynum að leita um þau víðtækrar sáttar? Við getum ekki látið heimilunum blæða út í skugga innanflokksátaka innan ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) með þeim hætti sem við erum að verða hér vitni að.