141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við íbúa landsbyggðarinnar. Þessi mikla fækkun sparisjóðanna hefur þýtt að þeir eru núna einungis um 2% af fjármálastarfsemi í landinu. Það hefur líka komið fram í umræðunni að margir sparisjóðir gengu því miður mjög glæfralega fram eins og aðrar fjármálastofnanir og við á Alþingi höfum samþykkt rannsókn á starfsemi sparisjóðanna.

Ríkið hefur nú ráðandi hlut í að minnsta kosti fimm sparisjóðanna sem eru um helmingur þeirra sjóða sem eftir eru. Lagaumhverfið í kringum sparisjóðina var bætt í fyrravor til að styrkja þá í rekstri sínum og auka möguleika þeirra á útvíkkun í rekstrarformi. Það hefur vonandi styrkt þá eitthvað, en kannski er það ekki nóg. Framtíðarmöguleikar þeirra sjóða sem eftir standa eru mismiklir og það verður mikil eftirsjá og skerðing á þjónustustigi í byggðum landsins ef þeir lifa ekki af við þær aðstæður sem þeir búa við í dag.

Ég vil koma inn á nokkuð sem mér finnst vert að skoða og beini því til fjármálaráðherra að skoða virkilega samlegðaráhrif af því að sameina fyrirtækið Íslandspóst, sem er í opinberri eigu, þeim sparisjóðum sem eftir standa. Ég tel að við eigum að skoða alla möguleika á að styrkja þá opinberu þjónustu og fjármálastarfsemi sem er úti um land og reyna að kanna samlegðaráhrif og möguleika á að annaðhvort með samstarfi eða samruna sé hægt, eins og gert er víða á Norðurlöndunum, að reka póstþjónustu ásamt fjármálaþjónustu. Ég tel að við eigum að horfa á þetta af fullri alvöru. Þetta gæti styrkt þjónustustig á landsbyggðinni sem ekki veitir af því að hún á undir högg að sækja. Þegar íbúum fækkar vitum við (Forseti hringir.) að það er byrjað á því að skera niður víða í þessum geira.