141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er augljóst að það er samstaða í þessum sal um að verja framtíð sparisjóðakerfisins og tryggja að sparisjóðir verði við lýði inn í langa framtíð. En í ljósi óvissu um framtíð sparisjóðakerfisins sem rætt hefur verið um og þar með líka hagsmuni ríkisins vegna eignarhluta okkar í sparisjóðum í gegnum Bankasýslu ríkisins ákvað ég að fá mat tveggja utanaðkomandi sérfræðinga á því hvaða áhrif það hefði ef Afl færi inn í Arion banka.

Það var klárlega niðurstaða beggja þessara sérfræðinga að örlög Afls geti haft mjög mikil áhrif á sparisjóði, það sem eftir stendur af sparisjóðakerfinu í heild, þar sem Afl er um fjórðungur af því. Í ljósi þessarar niðurstöðu skrifaði ég Bankasýslunni bréf og óskaði eftir því að hún tæki það til sérstakrar skoðunar hvort við gætum með einhverjum hætti gengið inn í þetta ferli til að tryggja eigandahagsmuni ríkisins. Síðan eru líka þessi sterku samkeppnissjónarmið sem komu fram í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem og í umræðunni hingað til. Við höfum fengið jákvætt svar frá Bankasýslunni um að farið verði í forkönnun á þeim atriðum sem við óskuðum eftir. Það er vel og nú verðum við að bíða og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.

Það sem ég held líka að skipti máli er það að við ræðum fyrir alvöru með hvaða hætti menn sjái fyrir sér hagræðingu í þessu kerfi, með hvaða hætti við sjáum framtíðaruppbyggingu og endurskipulagningu. Hér hafa verið nefnd atriði eins og lánasvið Byggðastofnunar og Íslandspóstur. Þetta hefur verið skoðað og meðal annars lét ég skoða þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma hvort lánastarfsemin ætti heima með sparisjóðunum. Þá var svo mikil óvissa um framtíð þeirra að það var ekki hægt að klára það mál.

Þarna á svo sannarlega allt að vera undir vegna þess að við, ríkið, erum (Forseti hringir.) ekki bara að verja eigandahagsmuni okkar heldur að tryggja öfluga samkeppni á fjármálamarkaði. Það er hlutverk okkar (Forseti hringir.) sem hér erum.