141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[14:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir. Farið hefur fram mikil vinna við að skilgreina álitaefni og kalla til samráðs fjölda hagsmunaaðila og sérfræðinga til að greina valkosti og leiðir til að útfæra stefnu stjórnarflokkanna um að fram fari heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða sem gangi út frá því að innkalla allar aflaheimildir í einu lagi og endurráðstafa þeim aftur með breyttum leikreglum. Þar með verði ótvírætt rofnar allar einkaeignarréttarlegar kröfur núverandi handhafa veiðiheimilda og sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar skilgreind ótvíræð og óvefengjanleg.

Ég tel að það frumvarp sem hér liggur fyrir tryggi enn frekar ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og verði það í framhaldinu stjórnarskrárvarið með 34. gr. auðlindaákvæðis sem liggur fyrir í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Eftir þessa löngu meðgöngu og miklu umræðu og samráð, með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, tel ég að löngu sé orðið tímabært að málið fái lýðræðislega umfjöllun og afgreiðslu á þessu þingi.

Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta umdeilda mál sem hefur verið þrætuepli þjóðarinnar lengi, allt of lengi. Þeir sem lengst hafa viljað ganga í því að breyta kerfinu finna þessu frumvarpi allt til foráttu og þeir sem verja núverandi kerfi með kjafti og klóm telja það allt of róttækt og ganga á rétt þeirra sem fyrir eru í greininni.

Ég hef verið talsmaður kerfisbreytinga allt frá því að frjálst framsal var sett á upp úr 1990 og tel mig hafa staðgóða þekkingu á því hvernig kerfið hefur þróast í tært markaðskerfi sem tekur ekkert tillit til neinna byggðasjónarmiða eða samfélagslegra sjónarmiða, hvernig það hefur heft mannréttindi til atvinnufrelsis og fært fiskveiðiauðlindina í hendur fárra og stórra markaðsráðandi fyrirtækja sem lúta ekki neinum samkeppnislögum sem skapar hættu á að það geti orðið á kostnað minni sjávarútvegsfyrirtækja í greininni. Kerfið hefur leitt til mikillar samþjöppunar aflaheimilda og byggðaröskunar í landinu með afleiðingum sem menn vöruðu við en var því miður ekki hlustað á því að hagræðingarkrafan og gróðavonin hjá fáum á kostnað almannahagsmuna var öllu yfirsterkari hjá þeim sem réðu ferðinni.

Fjármálakerfið og fjármálagjörningar fjölda sjávarútvegsfyrirtækja voru orðnir mjög áhættusæknir fyrir hrun, svo að vægt sé til orða tekið. Talið hefur verið af mörgum að þróun framsals og óheft markaðsvæðing í kvótakerfinu hafi átt stóran þátt í efnahagshruninu. Sú saga liggur nú öll fyrir og er víti til varnaðar.

Það frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu tekur á grundvallarsjónarmiðum en núverandi stjórnarflokkar fengu umboð frá þjóðinni í síðustu kosningum til að ná fram breytingum á stjórn fiskveiða; í fyrsta lagi að þjóðareign sé á auðlindinni, að jafnræði sé aukið og að nýliðunarmöguleikar í greininni verði auknir, að verndun og sjálfbærni á nýtingu fiskstofna sé til staðar og að atvinna og byggð í landinu sé treyst. Með því að skipta kerfinu upp í tvo flokka tel ég að verið sé að tryggja vel starfsumhverfi þeirra sem fyrir eru í greininni og falla undir flokk 1. Þeim býðst nú 20 ára skilyrt nýtingarleyfi sem þar með tryggir þeim sem best stöðugt rekstrarumhverfi til langs tíma. Þar með er mætt þeirri margumræddu óvissu sem haldið hefur verið á lofti af hagsmunaaðilum að greinin hafi búið við meðan löggjöfin hefur verið í endurskoðun. En jafnframt má benda á að greinin býr við þá óvissu í núverandi kerfi að aflamarkinu er úthlutað til eins árs í senn og ekkert er öruggt um hvernig úthlutun á aflaheimildum verður í framhaldinu.

Á hinn bóginn verður annar flokkur í kerfinu sá gluggi og opnun inn í kerfið sem beðið hefur verið eftir inn í það lokaða kerfi sem við höfum búið við allt of lengi. Sú breyting mun því stórefla nýliðun og mun styrkja kvótalitlar útgerðir í aðgengi að aflaheimildum á kvótaþingi sem komið verður upp þar sem öll viðskipti munu fara fram með aflamark og leigu á veiðiheimildum úr leigupotti ríkisins og það aflamark sem er í viðskiptum innan ársins milli þeirra aðila sem eru í greininni. Í fylgiskjali fjárlagaskrifstofunnar kemur fram að reiknað er með að leiguverðið lækki og framboðið verði jafnara yfir árið frá því sem nú er.

Kaupin hafa gengið þannig fyrir sig á eyrinni að þeir sem hafa haft yfir aflaheimildum að ráða og geta leigt frá sér eftir vild hafa oft haldið kvótalitlum leiguliðum í mikilli óvissu og jafnvel skapað skortsölu til að spenna upp leiguverð sem hefur í mörgum tilfellum orðið hærra en það verð sem fengist hefur fyrir aflann á fiskmörkuðum. Ég hef talað fyrir öflugum leigupotti ríkisins til mótvægis við nýtingarleyfi núverandi handhafa til þetta langs tíma, sem eru 20 ár, og tel að þessi niðurstaða sé mjög góð fyrir þá sem geta nú haft möguleika á að byggja sig upp í kerfinu með heilbrigðari hætti — þeir þurfa ekki að eiga fúlgur fjár eða skuldsetja sig upp í rjáfur til að komast inn í kerfið öðruvísi en að vera leiguliði og öðrum háður.

Það að setja strandveiðar í hlutdeild tel ég vera góðan kost fyrir stækkunarmöguleika þessa kerfis. Reynslan hefur sýnt að strandveiðar hafa gagnast sjávarbyggðum gífurlega vel og með tilkomu kvótaþings hafa þessar útgerðir miklu meiri möguleika á að gera út á öðrum tíma ársins frá því sem nú er meðfram strandveiðum. Í frumvarpinu er tekið á eignarhaldi á þeim bátum sem gera út á strandveiðar og öllum bátum eru tryggðir að lágmarki fjórir dagar í maí og júní; ég tel það mikið öryggisatriði að þeir dagar séu til staðar og líka varðandi jafnræði mismunandi útgerðarflokka eða varðandi stærð á bátum í strandveiðum.

Fyrir þinginu liggur einnig frumvarp um strandveiðar og flutningsmenn þess eru hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og fleiri. Þar eru lagðar til útfærslur á skiptingu afla á strandveiðitímabilinu. Ég hef verið hlynnt því að það fyrirkomulag sé skoðað en án þess að kerfið þróist í það að bátar séu kvótasettir heldur eigi þetta kerfi að rísa undir því að vera með frjálsar strandveiðar innan þeirrar hlutdeildar sem það hefur og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. 3,6% af heildaraflahlutdeild.

Ég sat í hinni svokölluðu sáttanefnd sem starfaði á fyrri hluta þessa kjörtímabils. Þar komu fram sjónarmið margra hagsmunaaðila um lengd nýtingartíma núverandi handhafa. Þar voru nefnd allt að 90 ár eða í það minnsta 40–60 ár líkt og er í orkugeiranum. Þetta var sterk krafa sumra þeirra hagsmunaaðila sem sátu í þeirri nefnd. Ég taldi þá að 10 ár væru eðlilegri tími eða ef hægt væri að 5 árum liðnum að sjá fyrir hvernig fyrirkomulagið væri næstu 10 ár, að menn sæju alltaf 10 ár fram í tímann og endurskoðað væri á 5 ára fresti. Með þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir í frumvarpinu tel ég því að komið sé mjög til móts við núverandi handhafa aflaheimilda í greininni og að þeir geti ekki með neinni sanngirni talað um óvissu í greininni með möguleika á svo löngum nýtingarleyfum. Hvaða atvinnugrein önnur getur séð fram á rekstrargrundvöll sinn næstu 20 árin? Þær eru ekki margar ef þær eru þá nokkrar.

Kröfur þeirra sem eru algerlega á hinum endanum og vilja setja allar aflaheimildir á uppboð á hverju ári eru að mínu mati algjör markaðsvæðing greinarinnar. Það mundi skapa mikla óvissu um hvar þær aflaheimildir mundu lenda hverju sinni og ekkert rekstraröryggi yrði í veiðum og vinnslu við slíkar aðstæður. Sjávarbyggðir sem fyrst og fremst byggðust á sjávarútvegi gætu ekki þrifist við þá óvissu frá ári til árs sem ótryggt aðgengi að veiðiheimildum mundi skapa.

Ég hef í vinnu minni í sjávarútvegsmálum allt þetta kjörtímabil talað fyrir takmörkun á framsali við mismikla hrifningu. Ég er því ánægð með að náðst hefur inn í þetta frumvarp takmörkun á framsali í aflaaukningu og að hægt sé að grípa inn í ef yfir 20% aflaheimilda fara frá byggðarlagi og heimilt sé að ríkið neyti forkaupsréttar og geti endurráðstafað þeim í gegnum kvótaþing í þágu viðkomandi byggðarlags eða landshluta. Einnig hef ég talað fyrir því í allri þessari endurskoðun að þeir sem fá nýtingarleyfi hjá ríkinu starfi eftir gildum kjarasamningum. Ég sé að ekki er komið inn á þann þátt í frumvarpinu og mun ég mælast til þess að það verði skoðað í hv. atvinnuveganefnd. Hvort sem því verður komið fyrir í lögum, greinargerð með frumvarpinu eða í reglugerð tel ég mjög brýnt að menn starfi eftir þeim grundvallarmannréttindum og leikreglum sem gilda almennt í þjóðfélaginu.

Ég vil vekja athygli á þeim tekjum af leigupotti ríkisins sem ráðstafa á til sveitarfélaga í gegnum landshlutasamtökin. Einnig mun ríkið geta notað þær tekjur sem fást fyrir leigu á veiðiheimildum til að fjárfesta í aflaheimildum á grundvelli byggðasjónarmiða, til að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi og til að efla kvótaþingið. Um 20% af leigutekjum ríkisins munu fara í markaðs- og þróunarsjóð tengdan sjávarútvegi. Ég tel það vel koma til greina að af þeim 20% fari 5% í fræðslusjóð og starfsmenntunarsjóð þeirra sem starfa við sjávarútveg til sjós og lands og vil skoða þann möguleika í vinnu hv. atvinnuveganefndar.

Þetta frumvarp í heild sinni markar því tímamót. Nú er tækifæri til að gera breytingar sem leitt gætu til þjóðarsáttar um umdeilt fiskveiðistjórnarkerfi sem aldrei hefur verið friður um og verður ekki friður um að óbreyttu. Hér stöndum við frammi fyrir því tækifæri sem beðið hefur verið eftir og ég vænti þess að allir þeir sem vilja gera breytingar á þessu kerfi komi að borðinu með sáttarhönd og í því ljósi að við þurfum að lenda þessu erfiða máli. Nú höfum við tækifæri til þess. Þetta er vissulega ekki eins og hver og einn hefði óskað sér í hinum ýtrustu óskum eða samið á eldhúsborðinu heima hjá sér, þeir áhugamenn um breytingar á kvótakerfinu sem til eru í landinu, en ég veit að þeir eru til fjölmargir. Hver og einn þeirra hefur alveg örugglega margt gott til málanna að leggja en hér hefur farið fram gífurleg vinna — sjónarmið aðila liggja fyrir og allir verða að slá eitthvað af sínum kröfum. Ég held að það verði okkur ekki til gæfu í sjávarbyggðum landsins, eða yfir höfuð í landinu, ef við ætlum að halda þessu ófriðarbáli logandi allt þetta kjörtímabil. Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gengur hér fram hjá og segir: Slökktu þá í þessu ófriðarbáli. Ég tel mig nákvæmlega vera í því hlutverki að reyna að slökkva það. Ég vona að aðrir þingmenn skvetti ekki olíu á þann eld heldur aðstoði mig við að slökkva bálið og skapi um það þjóðarsátt. Ég tel að í umræddu frumvarpi sé mikill efniviður sem við getum mæst á úr ólíkum áttum.