141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[14:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að hv. starfandi formaður atvinnuveganefndar tali um að það sé löngu tímabært að málið fái umfjöllun á þessu þingi. Það er ekki seinna vænna. Málið hefur verið til umræðu á nánast öllum öðrum þingum þessa kjörtímabils og það var svo sem kominn tími á það eflaust hjá stjórnarliðum að koma fram með það en allt of seint eina ferðina enn.

Hv. þingmaður talaði um að hagræðingarkröfur og gróðavonin hefðu rekið menn áfram eftir að framsalið var heimilað 1991. Því langar mig að spyrja hvort það sé hennar sýn að við værum betur sett í dag án þeirrar hagræðingar sem átti sér stað í íslenskum sjávarútvegi sem leiddi meðal annars til þess að fiskiskipum í landinu fækkaði úr næstum 2.600 í 1.100 og eitthvað, sem þau eru núna, hvort það hafi verið algjör óþarfi. Ættum við að veiða þessa sömu köku í dag með þessum fjölda fiskiskipa og tilheyrandi fjölda sjómanna?

Mig langar að spyrja hana annars og þá af því tilefni að hún hefur verið mikill talsmaður strandveiða. Þegar strandveiðar voru upphaflega settar á laggirnar voru ein helstu rök stjórnarliða fyrir því ólánsskrefi í íslenskum sjávarútvegi að þær mundu auka svo nýliðun í greininni, þetta yrði gluggi fyrir nýliða til að koma inn. Þingmaðurinn gæti svarað þessari spurningu í örstuttu máli: Af hverju hefur reynslan af strandveiðum sýnt okkur núna að sú nýliðun hefur ekki gengið eftir?

Vegna sömu orða langar mig að spyrja hana hvort hún sé ósátt við þá þróun sem hefur orðið í íslenskum sjávarútvegi, að hlutdeild smábáta í kerfinu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafi aukist mjög mikið þannig að aflahlutdeildir smábáta núna eru (Forseti hringir.) miklu meiri en þær hafa eflaust nokkurn tíma verið í núverandi kerfi til þess að (Forseti hringir.) efla litlar og meðalstórar útgerðir í landinu.