141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagræðingin getur átt sér stað og skipum og bátum fækkað þó að þetta óhefta framsal og sala á óveiddum fiski í sjónum sé ekki þar fylgifiskur. Það vitum við bæði. Við vitum að það hefur orðið mikil hagræðing á matvörumarkaði og menn hafa ekki selt með aðgengi að kúnnunum. Verslanir hafa stækkað og þeim hefur fækkað (Gripið fram í.) og hið sama á við um skip í landinu. (JónG: Hvað …?) Opinberir aðilar hafa komið að því að úrelda skip og lagt fram fé til þess og sú hagræðing hefði alveg getað átt sér stað óháð framsali á óveiddum aflaheimildum. Það fullyrði ég hér og nú.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um að þetta frumvarp mundi leiða til enn meiri samþjöppunar tel ég það þvert á móti. Það er verið að opna á nýliðun, styrkja þá sem fyrir eru í greininni til að skapa sér heilsársvinnu og að menn geti (Forseti hringir.) leigt úr leigupotti ríkisins en ekki hver af öðrum eins og er í dag.