141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom töluvert inn á það í upphafi ræðu sinnar að bregðast yrði við þeim aðstæðum sem menn teldu ekki nægjanlega góðar í dag, þ.e. aðgangi að veiðiheimildum, áhrifum á veik byggðarlög o.s.frv. Mér fannst vera ákveðin þversögn í máli hv. þingmanns sem snýr að því að þetta gerist á sama tíma og verið er að skera niður línuívilnun, minnka byggðapottana um helming sem og skel- og rækjubætur og ég spyr: Hvar sér hv. þingmaður sóknarfærin fyrir til dæmis Vestfirðinga, þ.e. Norðvesturkjördæmi? Hvar eru sóknarfærin og aukinn aðgangur fyrir útgerðirnar þar?

Núna er einungis ein fisktegund, þorskur sem er auðvitað mikilvægasta fisktegundin eða sem mest er veitt af á Vestfjörðum, tekin út fyrir sviga og þegar aflamarkið í þeirri tegund er komið upp í 240 þús. tonn fara 50% í leigupottinn og 50% til aflahlutdeildanna. En það á ekki við um neinar aðrar tegundir. Þessu er mjög misskipt milli landsvæða og jafnvel milli byggðarlaga, þó aðallega landshluta, þannig að mér finnst halla mjög á einmitt þessa sem snýr að útgerð, til að mynda á Vestfjörðum.

Hér var verið að ræða strandveiðarnar og það sem hefur mistekist í framkvæmd þeirra er að það er ekki jafn aðgangur, þar er mismunun. Af hverju fiska Vestfirðingar helmingi minna en Austfirðingar, Vestfirðingar sem hafa alla tíð verið þekktir fyrir að fiska manna mest? Það er vegna þess að þeir hafa ekki jafnmarga daga til að veiða. Þeir sem búa á Vestfjörðum mega róa fjóra daga en þeir sem búa á Austfjörðum mega róa allan mánuðinn. Það er þversögn í því þannig að þetta frumvarp gengur að mínu mati sömu leið og strandveiðarnar gerðu á sínum tíma.