141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp gerir ráð fyrir afskiptum ríkisvaldsins á hverjum tíma, sérstaklega ráðherrans sem fær gríðarlega mikil völd eins og hann nefndi áðan. Ráðherra getur tekið tillit til aldurs manna þegar hann úthlutar kvótum og öðru. Það gengur þvert á grunninn að því sem snýr að svokölluðu veiðileyfagjaldi eða auðlindagjaldi eða hvað við eigum að kalla það vegna þess að eftir því sem hagkvæmnin er meiri getum við tekið hærra veiðigjald, það gefur augaleið. Það hefur ekkert farið á milli mála í umræðunni. Þeir sem byrjuðu að tala fyrir auðlindagjaldi á sínum tíma sögðu þetta: Við verðum að láta greinina hagræða til að geta tekið hærra gjald. Það segir sig algerlega sjálft og þarf ekki að flytja langar ræður um það. Þetta kom fram hjá þeim sem fluttu fyrstu tillögurnar í þessa veru fyrir nokkrum áratugum. Þetta hefur ekkert breyst. En grunnurinn að þessu er sá að það sem gleymist alltaf í umræðunni er að fækkunin í greininni og hagræðingin er ekki eingöngu bara vegna þess að menn eru að gera hana arðsamari út af þessum hlutum heldur líka út af tækniþróuninni og niðurskurði á aflaheimildum.