141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að gengið hefur á ýmsu í sjávarútveginum, niðurskurður á aflaheimildum og annað slíkt. Mismunun í kerfinu hefur verið við lýði um nokkurt skeið og var það meðal annars rætt í vor að það þyrfti að eyða eins mikilli mismunun og hægt væri, til dæmis varðandi bótapottinn ef má orða það svo. Í frumvarpinu virðist vera farin hálf leið að 1–2 árum liðnum.

Við hljótum að spyrja: Hvers vegna er ekki gengið alla leið eins og við ræddum um í vor að allir mundu greiða, mig minnir 5,3%, það væri flata prósentan sem sett yrði á alla sem greiða í þessa bótapotta? Hvers vegna er sú leið ekki farin? Ef þeir pottar eiga að vera til staðar og það kerfi sem við erum enn með þá hlýtur að vera sanngjarnt að tekið sé jafnt af öllum tegundum. Það er því verið að mismuna áfram eins og hefur verið gert.

Mig langar líka að velta því upp við hv. þingmann hvernig hann sér kerfið í raun og veru þróast. Nái þetta fram að ganga bæði hvað varðar þennan mismun varðandi bæturnar og eins þegar kemur að kvótaþinginu þar sem hugsunin er að menn geti bara leigt aflaheimildir til eins árs í senn. Er hægt að vinna við slíkar aðstæður þar sem ekki er nóg með að aflaúthlutun sé til eins árs heldur líka þetta?