141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður benti réttilega á og ég fór ítarlega yfir í máli mínu. Ég og hv. þingmaður ásamt hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fluttum saman frumvarp um að jafna þetta. Við getum auðvitað haft skoðanir á því hvað pottarnir eiga að vera stórir og allt það en aðalatriðið er að allir borgi jafnt inn í þá.

Ef við tökum það sem gerðist árið 2009 þegar strandveiðarnar voru settar á, hvað gerðist þá? Þá hafði verið mikill niðurskurður í þorskafla, var aðeins að stíga upp, örlítið, en hvað þá? Hver var látinn borga inn í strandveiðipottinn? Bara þeir sem voru með þorskinn. Hefði ekki verið nær, eins og bent var á í umræðunum þá, að jafna muninn og setja það þannig upp að menn borguðu jafnt? Og hvaða kjördæmi skyldi það nú vera sem hefur farið hvað verst út úr því? Jú, það er Norðvesturkjördæmi. Mesta samsetningin gagnvart þorskheimildum er þar. En hverjir hafa misst aðganginn? Sama kjördæmið, eða stór hluti þess. Það er algert grundvallaratriði að skerðingarnar séu jafnar á hlutdeildina, alveg sama hvort þú ert með þorsk, ýsu, ufsa, karfa, steinbít eða grálúðu.