141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta ræðu. Ég ætla að spyrja hv. þingmann — hann er nú kannski einn fárra, ef ekki sá eini sem situr á þingi sem hefur bein tengsl við sjávarútveginn og hefur þar með þá þekkingu sem menn hafa sem starfa í greininni, og er leitt að tapa honum af þingi næsta ár því að þá stefnir í að enginn með slíka þekkingu komi — hvernig honum finnist frumvarpið vera gagnvart því sem ég býst við að þeir sem starfa í greininni séu að velta fyrir sér, þ.e. að stækka kökuna, að skapa meiri nýsköpun, að skapa meiri verðmæti.

Mín skoðun er sú, og ég fór yfir það í ræðu minni í gær, að verið sé að grauta alltaf í sama pottinum. Þetta er fjórða tilraun ríkisstjórnarinnar til þess, þ.e. taka af einum og færa öðrum á mjög ósanngjarnan hátt eins og hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Hvað finnst honum að skorti til dæmis í markmiðssetningarnar um nýsköpun, um aukna verðmætasköpun? Hvað vildi þingmaðurinn sjá í plaggi sem ríkisstjórnin hefur haft fjögur ár til að smíða og enn kemur sami bastarðurinn, sami grauturinn?