141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get bara svarað þessu neitandi vegna þess að ég hef enga trú á því að hæstv. ráðherra, hver sem hann væri á hverjum tíma og úr hvaða flokki hann kæmi, eigi að hafa þessi völd. Reynslan sýnir okkur það. Ég fór yfir það sem snýr að hinu nýja strandveiðifrumvarpi sem var samþykkt árið 2009 hvernig það hefur þróast. Það hefur ekki efni á aðganginum að miðunum, alls ekki.

Það er dálítið athyglisvert að fara yfir þetta. Ef menn skoða sögulega þróun þess hvernig fækkun hefur orðið í byggðarlögum og samdráttur þá er ekki hægt að setja eitthvert samasemmerki milli þess hvert aflaheimildir fara, það er ekki þannig. Við fengum mjög sláandi tölur sendar í morgun frá stjórn SSNV. Hvað kom fram þar? Mesta fækkun á síðasta ári var á Sauðárkróki. Mesta fækkunin í Norðvesturkjördæmi, eða í þeim gamla hluta Norðvesturkjördæmisins eins og við köllum það, var á Sauðárkróki. Á því svæði er sterkasti sjávarútvegurinn. Auðvitað er ekkert samhengi í þessu. Mikilvægt er að menn byggi upp og komi sér saman um að hafa byggðastefnu hvort sem hún snýr að sjávarútvegsmálum, heilbrigðismálum eða öðru.