141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi síðast. Telur hann að það hafi verið hægt vegna stjórnarskrárvarins réttar manna til atvinnu að flokka menn eftir því hvaða atvinnu þeir stunduðu áður, hvort þeir stunduðu þessa atvinnu? Telur hann að við höfum ekki verið að brjóta stjórnarskrá ef við hefðum sett slík skilyrði fram? (Gripið fram í.)

Varðandi jöfnunarsjóðina, nú hefur uppsjávargeirinn fram að þeim tíma sem núverandi ríkisstjórn tók við ekki borgað neitt í félagslegar aðgerðir. Út af hverju í ósköpunum með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn í öll þessi ár hafa menn ekki komið sér saman um það að uppsjávargeirinn greiddi inn í félagslegu aðgerðirnar? Við hvað voru menn hræddir þá? Núna er verið að byrja á því að greiða úr uppsjávargeiranum inn í félagslegar aðgerðir og það er til mikilla bóta eins og hefur komið fram. Ég er alveg tilbúin til þess að skoða það að uppsjávargeirinn komi til með að greiða til fulls áður en langt um líður.