141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir mig og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að varðveita það sem við erum sammála um í sambandi við sjávarútvegsmálin. Þarna erum við algjörlega sammála. Mín skoðun er sú, og ég kom inn á það í ræðu minni hér áðan, að menn eigi að sitja jafnt að öllum hlutum. Ef menn ætla að hafa einhverja ákveðna viðmiðun, eins og er í þorskinum, á það að gilda um allar tegundir. Við erum algjörlega sammála um það, við skulum varðveita það. (Gripið fram í.)

Hvað varðar það sem hv. þingmaður spyr um í sambandi við stjórnarskrárvarinn réttindi þá snýr það ekki að mönnum í þessari atvinnugrein eða annarri heldur að þeim bátum sem var búið að taka varanlegar heimildir af og selja, að þeir mættu ekki fara á strandveiðar. Það var hins vegar ekki vilji hjá stjórnarmeirihlutanum að skoða það á þeim tíma. Hins vegar var bent á að hægt væri að gera það jafnvel einu sinni en ekki oftar. Það var enginn vilji til þess á þeim tíma að bregðast við því sem menn eru að gagnrýna, að fyrir þá sem hafa selt sig út úr greininni sé brautin alltaf teppalögð inn í hana aftur. Það er vandamálið. Hvað er verið að tala um núna í strandveiðunum? Að banna að hafa fleiri en einn bát. Það er út af því að þessir menn geta verið með fleiri en einn bát.