141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Svarið við síðustu spurningu er já og mér hefur alltaf þótt það skemmtilegt og í raun og veru ágæt hugmynd með ýmsum hætti. Svarið við annarri spurningunni, sem var um það hvað gerðist eftir 20 ár eða (PHB: 19.) rétt áður en leyfin renna út — ja, það er þannig að málið er á dagskrá áfram. Þetta er málamiðlun sem stendur til bráðabirgða, þetta tryggir hins vegar rétthöfum 20 ára nýtingartímabil. En strax verður settur niður hópur til að rannsaka og reyna að ná samkomulagi um hvernig við ætlum að halda þessu áfram. Málið er ekki hér með búið ef við samþykkjum þetta frumvarp og ég tel það einn af helstu kostum þess.

Við fyrstu spurningunni: Já, forseti, markaðurinn er góður þjónn en afleitur húsbóndi. Það sem ég vil að gerist er að þessi atvinnugrein búi við markaðsskilyrði, búi við frjálsa verslun, sem ég nefndi áðan, og ekki við ofurvald stjórnmálamanna eða við lénsveldi eins og hún hefur gert um nokkra hríð. Ég tel að atvinnugreinin þróist best þannig og skili síðan arði í ríkissjóð af þjóðareigninni fyrir utan venjulega skatta sem notaðir séu til að reka hér velferðarþjónustu og gera gagn í samfélaginu.