141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég er reyndar ekki alveg sáttur við þau. Í 1. gr. og 2. gr. stendur nefnilega að ráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Ráðherra er með alveg óskaplega mikið af heimildum út og suður til að setja reglugerðir og annað slíkt og ákveða hluti. Þetta er stjórnmálavæðing kvótans þannig að það eru stjórnmálamenn meiri hlutans sem taka yfir kvótann í nafni þjóðarinnar.

Í ákvæði til bráðabirgða, nr. 8, er síðan talað um hvað eigi að taka af núverandi kvótahöfum, í stað 21 þús. tonna fyrsta árið en síðan á að taka af þeim upp í 45 þús. tonn. Það á að taka af núverandi kvótahöfum tvöfalt meira eða rúmlega það og setja í alls konar potta og pönnur, þar á meðal á þetta kvótaþing sem verður líka undir opinberri stýringu. Þar situr ráðherrann og ákveður til hvaða byggðarlaga það gæti hugsanlega farið og það jafnvel eftir aldri fólks.