141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við hér frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Alls konar útgáfur af þessum hugmyndum hafa komið fyrir þingið og verður að segjast eins og er að það gengur hægt að koma einhverju viti í þetta, svo ég orði það bara þannig. Mér sýnist enn verið að reyna að laga þetta eitthvað en án þess að ná í sjálfu sér nokkrum einasta árangri með það. Mér finnst hugmyndafræðin í frumvarpinu enn sú sama, þ.e. að það hljóti að vera einhverjir aðrir betur til þess fallnir að stunda sjávarútveg en þeir sem eru í greininni í dag. Mér sýnist vilji þeirra sem mæla fyrir þessu frumvarpi og vilja fá það í gegnum þingið sá að færa atvinnuréttinn í raun eða atvinnutækin sem menn hafa með höndum í dag til einhverra annarra af því að þeir séu örugglega betri eða einhvern veginn í meiri rétti til þess að sinna þessari atvinnugrein.

Margt ágætt hefur komið fram í þessari umræðu, margt skýrst varðandi hugmyndafræðina í frumvarpinu þegar ég hef hlustað á stjórnarliða. Það hefur líka komið fram gagnrýni sem við höfum svo sem heyrt oft áður og sjálfsagt harmónerar eitthvað af því sem ég ætla að segja hér við þá gagnrýni.

Eitt atriði sem hefur verið nefnt er að það er að sjálfsögðu mjög sérstakt að koma með mál sem þetta á síðustu dögum þingsins. Ætli það séu ekki um það bil 15 þingfundadagar eftir? Fyrir liggur að frumvarpið þarf að senda út til umsagnar. Ef á að gera það sómasamlega mun það væntanlega taka einar tvær vikur. Maður fer að velta fyrir sér hvort meiningin sé að klára frumvarpið eða hvort þetta sé sett fram til að þyrla upp ryki og dreifa umræðunni, láta umræðuna ekki lengur snúast um hörmuleg mistök ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu eða málefni heimilanna heldur láta umræðuna snúast um eitthvað annað. Allt í lagi, við tökum þá bara þá umræðu ef það er markmiðið.

Í frumvarpinu er útgerðarflokkum enn mismunað eins og fram hefur komið. Veiðigjaldið gerir það, sérstaklega sérstaka veiðigjaldið, en hér er í raun bætt um betur og nefni ég eingöngu að þessu sinni svokallaða bótaflokka, þ.e. þær heimildir sem renna í þann pott. Ekki er gert ráð fyrir að jafna þær að fullu, ef ég hef skilið þetta frumvarp rétt, og það er miður.

Mér sýnist líka að ekki sé á nokkurn hátt horft til nýsköpunar og meiri verðmætasköpunar í greininni. Það er meira að segja ekki nefnt í markmiðum frumvarpsins eins og hefur verið bent á sem er sorglegt því að það sem er einmitt mjög áberandi í sjávarútveginum í dag eru fjölmargir aðilar sem eru að reyna að auka verðmæti hvers kílós sem dregið er úr sjó, eru að vinna í nýsköpun varðandi tækniþróun og úrvinnslu á afurðum úr sjávarútveginum. Við þekkjum sjávarklasann við Granda þar sem saman koma fyrirtæki og einstaklingar sem hafa fínar hugmyndir um hvernig gera megi betur. Allt tengist þetta.

Það er því sorglegt að mér sýnist frumvarpið ekki til þess fallið að eyða eða draga úr þeirri óvissu sem ríkir um sjávarútveginn. Þvert á móti er frumvarpið til þess fallið að auka óvissuna að mínu mati.

Rök fyrir því eru meðal annars að gert er ráð fyrir nýtingarsamningum til 20 ára í frumvarpinu en ekki að þeir framlengist heldur á einhvers konar nefnd eða starfshópur að fara yfir málið. Að mínu viti er miklu skynsamlegra að fara þá leið að gera slíka samninga með endurnýjun þannig að þeir sem eru í greininni sjái alltaf vissan tíma fram fyrir sig og geti gert þær áætlanir og ráðstafanir sem þarf varðandi í fjárfestingar o.s.frv.

Það vantar líka þá sýn að sjávarútvegurinn sé eitthvað meira en bara það að draga fisk úr sjó, setja hann í kassa og senda til útlanda eða á disk á borði hjá Íslendingum. Sjávarútvegurinn er hátækniiðnaður þar sem Íslendingar hafa náð gríðarlegum árangri í tækniþróun og í fullvinnslu og að nýta betur hráefnið eins og ég sagði áðan. Mér finnst því skorta verulega á að á þetta sé horft í frumvarpinu.

Það virðist eilítið byrjað að fenna yfir þá sýn sem við höfum haft á sjávarútveginn, að hann sé sjálfbær atvinnugrein sem ekki njóti beinna ríkisstyrkja, með tillögum sem draga munu úr hagkvæmni greinarinnar.

Sjávarútvegur allt í kringum okkur er stórlega ríkisstyrktur, jafnvel hjá helstu samkeppnislöndum okkar. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að við getum áfram látið greinina starfa í umhverfi þar sem hún er sjálfbær, þar sem ekki þarf að setja mikla fjármuni eða beita styrkjum til að greinin geti lifað.

Þegar órói er á mörkuðum hugsa jafnvel samkeppnisþjóðir okkar sér gott til glóðarinnar en á sama tíma eru íslensk stjórnvöld að gera ýmislegt sem að mínu viti eykur á vandræði þessarar greinar. Ég ætla að nefna eitt atriði sem ég kom inn á í upphafi máls míns, þ.e. svo virðist sem það eigi að halda áfram með þær hugmyndir að færa heimildir frá einum til annars, t.d. varðandi pott 2 sem er ræddur í frumvarpinu. Það hefur komið fram áður að það er gert ráð fyrir að miðað við frumvarpið verði um 45 þús. tonn komin í þennan pott verði veiðin óbreytt. Verði heimildir ekki auknar sem því nemur verður þessi aukning ekki til nema tekin af einhverjum öðrum sem eru með aflaheimildir í dag. Það mun að sjálfsögðu rýra getu þeirra til þess að reka fyrirtæki sín og hafa að mínu viti þær afleiðingar að á endanum muni einhverjir vilja selja fyrirtækin sín líkt og á sér stað núna með veiðigjaldið og auka þar af leiðandi samþjöppun í greininni.

Þá er rétt að nefna það sem kom fram í gær í ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þingmaðurinn fór yfir umfjöllun nokkurra aðila í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál þar sem þeir fóru nokkuð ítarlega yfir sjávarútveginn. Þar kemur fram að þær breytingar sem orðið hafa á sjávarútveginum og breytingar á byggðum megi meðal annars rekja til breytinga í samfélaginu öllu. Auðvitað hafa breytingar eins og framsalið 1991 haft ákveðnar afleiðingar, það er alveg ljóst, en meginbreytingin er sú að samfélagið allt er að breytast. Í sterkum byggðarlögum þar sem eru stæðilegar útgerðir eru líka til staðar vandamál. Auðvitað hefur það áhrif þegar ríkisvaldið leggur veiðigjald upp á 600 millj. kr. á eitt fyrirtæki og á sama tíma, á fjórum árum, fækkar opinberum störfum um 50 í því samfélagi þar sem þetta fyrirtæki starfar. Opinberu störfin hafa jafnvel meiri áhrif ef litið er á samfélagið í heild um leið og það dregur úr getu þessa fyrirtækis til að láta gott af sér leiða.

Ríkisstjórninni virðist takast verulega vel upp í því að rýra kosti þess að búa úti á landi, rýra kosti landsbyggðarinnar með aðgerðum sínum.

Í markmiðskaflanum, ég nefndi það reyndar áðan, er ekki talað um nýsköpun og betri nýtingu og við hljótum að vilja leggja mikla áherslu á að við fáum meira út úr hverju kílói sem við erum að vinna.

Ég hjó eftir því í viðtali um daginn við sérfræðing í þessum málum, Daða Má Kristófersson, að hann velti fyrir sér þeim markmiðum sem þarna ætti að ná. Hann taldi ólíklegt að stjórnvöld næðu markmiðum sínum, frumvarpið væri þannig úr garði gert. Hann velti því upp í lokin til hvers væri verið að þessu. Við þingmenn hljótum að spyrja okkur líka: Til hvers er verið að þessu? Til hvers er verið að koma með frumvarp sem þetta sem er svo stórlega gallað að það er algjörlega fyrirséð að umsagnir verða afar neikvæðar? Ég ætla bara að leyfa mér að segja að flestar munu verða afar neikvæðar vegna þess að breytingin frá síðasta frumvarpi er svo lítil. Það er hjakkað í sama farinu og sömu vinnubrögð stunduð. Þar af leiðandi fær frumvarpið væntanlega falleinkunn.

Annað sem vekur eftirtekt í þessu er að mér sýnist, a.m.k. við fyrsta lestur, að áfram sé ætlunin að ríkisvaldið fari í stórfellt brask með aflaheimildir, þ.e. að ríkisvaldið ætli að blanda sér inn í leigu og gera útgerðir að einhvers konar leiguliðum. Ég held að það sé ekki til bóta. Ef menn hafa ekki traust til þess að ákveða söluverðmæti eða hvaða verð sé réttlátt og réttmætt kann að vera að einhvers konar kvótaþing sé svarið. Sú leið sem hér er boðuð er hins vegar ekki góð. Hún er til þess fallin að ríkið blandi sér inn í viðskipti með heimildir og ætlar meira að segja að hafa heimild til að kaupa inn á þingið o.s.frv. Mér sýnist mjög langt gengið í ríkisvæðingu. Áðurnefndur Daði Már Kristófersson segir líka að miðað við hvernig þetta er sett upp sé kvótaþingið fyrst og fremst tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ef það er hugmyndin er bara mikilvægt að það sé viðurkennt.

Við framsóknarmenn fórum í gegnum mikla vinnu 2010–2011 um sjávarútvegsmálin, skipuðum nefnd sem fór í gegnum málin og skilaði svo tillögum til flokksþings. Þær leggja grunninn á þann hátt að það sé byggt á sama kerfi og er í dag, aflamarkskerfi og aflahlutdeildarkerfi, að gerðir séu samningar til um það bil 20 ára og að þeir framlengist sjálfkrafa. Þar af leiðandi getum við ekki stutt það að óvissan sem felst í þessu frumvarpi muni standa óbreytt áfram.