141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja að ég deili að miklu leyti þeim áhyggjum sem hann fór yfir í máli sínu vegna frumvarpsins um stjórn fiskveiða. Nú mun frumvarpið og þetta þingmál koma til afgreiðslu atvinnuveganefndar þegar 1. umr. um það lýkur. Það er mat manna að á því hafi verið gerðar einhverjar breytingar en matið á því hversu veigamiklar þær eru er svolítið misjafnt milli aðila. Í gær kom fram hjá einum fulltrúa stjórnarflokkanna, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að um væri að ræða mjög veigamiklar breytingar. Farið hefði verið yfir allar umsagnir og gagnrýni sem kom fram á fyrri frumvörp og það verið skoðað og ekki hægt að skilja það öðruvísi á málflutningi hennar en tekið hefði verið tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram þar. Því er ég ekki sammála og ég hef áhyggjur af framvindu málsins.

Mig langar að inna hv. þingmann og formann þingflokks framsóknarmanna eftir því hvernig hann sér framhald málsins fyrir sér og vinnu okkar í atvinnuveganefnd. Er ekki eðlilegt að það verði farið í þá úttekt á frumvarpinu sem var gerð við síðasta frumvarp, þ.e. að við fengjum sérfræðinga til að fara yfir málin, þeir mætu hlutlaust hver áhrif breytinganna væru? Þarf umsagnarferlið ekki að vera með eðlilegum hætti? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þeirra atriða.