141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög óábyrgt af ríkisstjórnarflokkunum að koma fram með þetta frumvarp núna. Mér finnst það óábyrgt að því leytinu til að við þekkjum alveg söguna um það þegar ríkisstjórnin kemur fram með mál á síðustu dögum þingsins eins og hún hefur svo margoft gert á þessu kjörtímabili, yfirleitt stórmál eins og þetta. Þá er mikil hætta á að menn kasti til höndunum og vinnslu við málið sé hraðað. Það má ekki gerast.

Er þetta leikrit? Ég velti því upp hvort það sé hluti af því að reyna að beina athyglinni frá erfiðasta máli ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu sem hlýtur að vera Icesave-málið en ég held að það fenni aldrei yfir hvernig var haldið á því máli né það sem varðar heimilin í landinu. Það kann vel að vera að allt aðrar hugmyndir séu þar að baki og það sé virkilegur vilji til að klára málið og þá mun að sjálfsögðu reyna á það. En það er ekki hægt að gera með því að kasta til höndunum, þetta verður að gera (Forseti hringir.) með vönduðum hætti.