141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:51]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort honum þyki í raun ekki tímasóun að vera að reyna að rökræða hér um frumvarp sem er hreinasta bögglauppboð. Óskiljanlegt, úr takti við allt sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi, úr takti við raunveruleikann? Auðvitað er málið enn þá á núllpunkti vegna þess að eini möguleikinn til að ná einhverri raunhæfri niðurstöðu til sátta og árangurs er samningaleiðin. 25 aðila nefndin skilaði verki fyrir fjórum árum og menn glöddust og sáu fram á þokkalega sátt í erfiðu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í þeim efnum að það sem ætti í rauninni að gera núna er að kalla saman 25 manna nefndina og fá álit hennar — ásamt því að leita til margra annarra sérfræðiaðila — fá álit hennar á þessu bögglauppboðstilboði ríkisstjórnarinnar sem hvorki stjórnarsinnar sjálfir né aðrir skilja. Þótt einstaka þingmenn sem allt vita gefi út yfirlýsingar (Forseti hringir.) kemur ekkert út úr því.